Sjálfstæðisflokkur og sexflokkurinn

Sigurvegari síðustu þingkosninga, Sjálfstæðisflokkur, gat beðið rólegur eftir að sexflokkurinn, þ.e. flokksdvergarnir sex á alþingi, ynni sig í gegnum leðjuslag eftirkosninganna.

Sjálfstæðisflokkur mátti vita að þeir tveir flokkar sem kæmu skást út yrðu samstarfsaðilar í ríkisstjórn. Í sexflokknum var aðeins einn útilokaður, Píratar, enda börðust þeir um hæl og hnakka í leðjunni og ötuðu hina auri eins og iðnaðarmaður í akkorði.

Flokkarnir tveir, sem komu skást út, Viðreisn og Björt framtíð fengu lyklana að litlu deildum stjórnarráðsins - en Sjálfstæðisflokkurinn fer með lyklavöldin.

Ef Viðreisn og Bjartri framtíð leiðist tilveran í stjórnarráðinu er alltaf hægt að skila lyklunum. Framsókn, Vinstri grænir og Samfylking bíða eftir sínu tækifæri í húsi móðurflokksins.

Ofanritað er útlegging á grein samfylkingarmannsins Kristjáns Guy Burgess, sem Eyjan segir frá.


Munngælur og landráð

Trump forseti Bandaríkjanna er reglulega ásakaður um landráð í fjölmiðlum þar vestra. Hann er sakaður um að hafa stolið forsetakosningunum með hjálp Pútín Rússlandsforseta. Álitsgjafar, stjórnmálamenn, blaðamenn og þáttastjórnendur endurtaka þessar ásakanir í mörgum útfærslum daginn út og inn.

Brigsl um landráð forsetans fá engin formleg viðbrögð frá stjórnvöldum eða eftirlitsstofnunum. Umræða af þessu tagi er talin hluti af hversdagspólitík í landi frjálshuga manna og hugaðra.

En að segja talfæri Trump best sniðin fyrir hólk Rússlandsforseta - það er einum of mikið af því góða. Þáttastjórnandinn Stephen Colbert fór yfir strikið þegar hann ýjaði að munnmökum forsetanna tveggja með Trump í undirgefna hlutverkinu.

Samkvæmt Guardian rannsakar FCC, eftirlitsnefnd fjölmiðla, flimt Colbert í kjölfar fjölda kvartana.

Stjórnmálamenning í landi þar sem landráðabrigsl þykja sjálfsögð en munngælur ekki er komin töluvert út í móa.


Bloggfærslur 6. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband