Leiði er líka nám

Samfélagsmiðlar og tæknilausnir eru viðkvæðið í skólastaumræðunni. Kennsla verði að taka mið af vettvangi barna og unglinga, annars er hætt við að ungmennunum leiðist.

En leiði er líka nám. Ungt fólk lærir af því að leiðast. Að vera einn með sjálfum sér og sínum hugsunum stuðlar að þroska.

Sigurður Pálsson skáld fann rithöfundinn í sér þegar honum leiddist í bókfærslu í MR fyrir hálfri öld.

Allt nám er í grunninn sjálfsnám. Skólar búa til aðstæður til náms og kennarar freista þess að halda nemendum við efnið. En nám lýtur ekki venjulegum lögmálum þar sem innbyrt efni skilar tiltekinni útkomu. Sjálfsnám verður til í huga einstaklingsins. Og þótt hæpið sé að gefa algilda forskrift fyrir alla er annað ólíklegt en að leiði komi þar við sögu.

Í leiðanum finnur maður best fyrir verkefninu sem allir glíma við ævina á enda. Að skilja sjálfan sig.

 


Sjálfstæðisflokkurinn og sólkerfi stjórnmálanna

Síðustu kosningar skiluðu þeirri  niðurstöðu að landinu verður ekki stjórnar án Sjálfstæðisflokksins. En þrátt fyrir það nær móðurflokkur stjórnmálanna ekki þriðjungsfylgi.

Sjálfstæðisflokkurinn undir þessum kringumstæðum verður að finna samnefnara með þings og þjóðar til að halda stöðu sinni sem miðja sólkerfis stjórnmálanna.

Það felur í sér að forðast séráhugamál minnihlutahópa innan flokksins, eins og að selja áfengi í matvöruverslunum eða einkavæða heilbrigðiskerfið og þjóðarflugvöllinn.

En Sjálfstæðisflokkurinn verður líka að brjótast undan sérhyggju hagsmunahópa, t.d. ferðaþjónustunnar, sem leggst gegn einföldun skattkerfisins þar sem byrðum er jafnt dreift.

Ef vel tekst til verður Sjálfstæðisflokkurinn áfram miðja sólkerfisins, þjóðinni til heilla.


mbl.is Stendur ekki til að selja flugstöðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaupfélögin á milli auðvalds og sósíalisma

Kaupfélögin voru sjálfsprottinn félagsrekstur sveitafólks. Það fyrsta var stofnað á meðan enn giltu lög um vistaskyldu. Enginn mátti búa án búfjár og þeir sem ekki áttu bú urðu að ráða sig í vist hjá bónda.

Þótt þilskip væru gerð út yfir sumarmánuði voru fiskveiðar að mestu bændaútgerð. Vinnuaflið fór úr sveitunum á vertíð yfir háveturinn þegar búskapurinn var í dvala.

Saga kaupfélaganna er samofin þéttbýlismyndun, ungmennafélagshreyfingunni og baráttu þjóðarinnar til sjálfstæðis. Án kaupfélaganna hefði umbylting bændasamfélagsins áratugina fyrir og eftir 1900 orðið sársaukafyllri. Kaupfélögin tryggðu að vaxandi velmegun skilaði sér heim í sveitina.

Helsti keppinautur kaupfélaganna var innlent og erlent auðvald í formi einkarekinna hlutafélaga. Miðstöð Íslandsverslunar flutti frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur um 1900 en kaupfélögin tryggðu að sveitirnar voru ekki afskiptar.

Banabiti kaupfélaganna var sósíalismi sem bjó til yfirstétt kommisara er fleyttu rjómann en skömmtuðu félagsmönnum skít úr hnefa.

 


mbl.is Elsta kaupfélaginu slitið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband