Slæm staða flokks án foringja

Tveir flokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, voru jafn stórir eftir kosningarnar 2013, hvor með fjórðungsfylgi. Flokkarnir mynduðu ríkisstjórn og endurreistu Ísland; sjálfsvirðingu þjóðarinnar var borgið með afturköllun ESB-umsóknar og hrunið gert upp í sátt við þjóðina.

Margir lögðu hönd á plóginn en forystan var í höndum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Framsóknarflokksins og forsætisráðherra. Hann var maðurinn sem leiddi fram þá lausn í gjaldþrotamálum föllnu bankanna er tryggði farsæla niðurstöðu fyrir þjóðina.

Sigmundur Davíð varð fyrir rætnari árásum en dæmi eru um í seinni tíma stjórnmálasögu. Undir forystu RÚV var framleiddur spuni um að Sigmundur Davíð væri spilltur stjórnmálamaður. Hann var knúinn til að segja af sér embætti forsætisráðherra og kosningum var flýtt.

Rétt fyrir kosningarnar gekkst klíka í Framsóknarflokknum fyrir því að fella sigursælasta formann flokksins á þessari öld. Sigurður Ingi Jóhannsson þáði embætti formanns frá klíkunni.

Í kosningunum síðast liðið haust hrundi fylgi Framsóknarflokksins niður í 11,5 prósent á meðan samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkur, jók fylgið í 29 prósent.

Mælingar eftir kosningar sýna Framsókn fastan í tíu prósent fylgi. Flokkurinn, sem er eldri en lýðveldið, er verr staddur en nokkru sinni í 100 ára sögu Framsóknar.

Fyrirsögn viðtengdrar fréttar er ,,Sigmundur fær sömu tækifæri og aðrir" og er höfð eftir Sigurði Inga sitjandi formanni. En Framsóknarflokkurinn er án tækifæra þar sem flokkurinn fórnaði foringja fyrir formann.

 

 

 


mbl.is Sigmundur fær sömu tækifæri og aðrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maðurinn skapaði sjálfan sig

Guð skapaði manninn var viðkvæðið fram á 19. öld. Þróunin skóp manninn, sagði Darwin fyrir hálfri annarri öld og gaf undir fótinn þeirri hugsun að maðurinn sé afleiðing náttúruvals. Maðurinn sé minnst sjálfur aðili að útkomunni.

Á seinni tímum er kominn fram sá skilningur að maðurinn sé meðvituð afleiðing eigin gjörða. Líffræðingurinn Kevin Laland á 30 ár að baki í viðleitni sinni að sýna fram á að menningin mótaði manninn. Menning, vitanlega, kemur hvorki frá guði né náttúrunni heldur manninum sjálfum.

Í nýrri grein teflir Laland menningunni fram sem meginmismun milli manna og dýra. Menning er hér skilin vítt, sem öll hæfni mannsins til að hafa áhrif á umhverfi sitt. Lykillinn að áhrifum á umhverfið, náttúruna og samfélagi manna, er merking. Ekkert verkfæri til merkingarframleiðslu er betra en tungumálið.

Með merkingarbæru tungumáli er hægt að kenna yngri kynslóðum og þar með hleðst upp menningarauður sem er forsenda fyrir undirbúningi, skipulagi og framkvæmd þeirra verka sem gerði manninn, en ekki aðrar dýrategundir, að húsbónda jarðkringlunnar.

Laland segir menningarauðinn allt að 2,5 milljón ára gamlan. Elstu útgáfur af forföður mannsins eru núna sagðar 7,2 milljónir ára. Darwinistar segja sjálfsagt að náttúruval kom við sögu áður en maðurinn fékk vit til að þróa merkingarbært tungumál. Þeir guðhræddu leita trúlega enn lengra aftur og spyrja um upphaf efnisins; getur eitthvað orðið til úr engu? Var ekki skapari á undan miklahvelli?

En þessi hugmynd, að maðurinn skapaði sjálfan sig, er rökrétt niðurstaða í samtímanum. Við höfnuðum guði og trúin að náttúrulögmál útskýri manninn fer minnkandi. Þá er þetta eftir: maðurinn skóp manninn.


Óstofnað félag stærra en Framsókn

Óstofnað stjórnmálafélag Sigmundar Davíðs er orðið stærra en Framsóknarflokkurinn, mælt í áhuga og athygli sem félagið fær. Framsókn undir núverandi forystu er brauðmolaflokkur sem lætur sér nægja að hirða molana af veisluborði stjórnmálanna.

Undir forystu Sigmundar Davíðs var Framsóknarflokkurinn leiðandi afl í stjórnmálum, setti dagskrá umræðunnar og fór með forystu í ríkisstjórn.

Framsóknarmenn geta engum kennt um nema sjálfum sér. Hallarbylting fyrrverandi formanna kortéri fyrir síðustu kosningar leiddi flokkinn út í eyðimörkina.

 


mbl.is Fyrrverandi formenn stjórna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband