Pírati fattar ekki eigin lífsgæði

Þingmaðurinn Ásta Guðrún Helgadóttir pírati er með tvöföld og líklega þreföld meðallaun þegar allt er talið. Samt sagðist hún á sunnudag of blönk til að kaupa íbúð.

Tveim dögum síðar fattar Ásta Guðrún að hún hefur það giska gott og biðst afsökunar á því að þykjast blönk á sunnudag.

Ásta Guðrún er dæmigerður pírati. Þeir búa í landi með hvað mestu velferð í víðum heimi og jöfnust og bestu lífskjör á byggðu bóli en geta samt ekki hætt að tala um ónýta Ísland.


mbl.is Ásta Guðrún biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falskt fullveldi, fölsk trú - siðbreyting vesturlanda

Í höfuðborg Evrópusambandsins er þjóðríkið kallað ,,falskt fullveldi", rétt eins og kaþólska kirkjan sakaði mótmælendur á árnýöld um ,,falska trú" þegar þeir andmæltu rétttrúnaði páfavalds.

Kalvínistar, hússítar, lútherstrúarfólk auk annarra mótmælenda létu ekki segjast og brutu á bak aftur páfavaldið í Norður-Evrópu. Englendingar fóru sínar eigin leiðir, líkt og nú með Brexit. Hjónabandsvandræði Hinriks 8. leiddu til aðskilnaðar við Róm en ekki trúarsannfæring.

Norður-Evrópubúar samtímans sækja innblástur í andófinu gegn ESB til Bandaríkjanna. Þar er rísandi stjarna kaþólskur hommi sem gortar af svörtum elskhugum. Milo Yiannopoulos heitir hann og er á sama aldri og Jesús þegar hann var krossfestur. Í viðtali við BBC greinir Yiannopoulos þrjár forsendur siðbótarhreyfingar samtímans: a. múslímavæðing vesturlanda, b. alþjóðavæðing í anda ESB og c. hömlur pólitíska rétttrúnaðarins á tjáningarfrelsi.

Yiannopoulos veldur óeirðum með fagnaðarerindi sínu, sem m.a. felst í fordæmingu á femínisma. Í bandarískum spjallþáttum kallar hann fram ,,fokk jú" viðbrögð frá ráðsettum miðaldra karlmönnum.

Yiannopoulos er líkt og góðvinur hans, Trump forseti, birtingarmynd siðbreytingar vesturlanda. 

Þeir félagar eru líka boðberar válegra tíðinda. Mótmælahreyfingin á árnýöld samdi frið við kaþólikka í Ágsborg 1555 undir formerkjum fursti ræður trú, cujus regio, ejus religo. Ferðabann Trump á þegna sjö múslímaríkja var hafnað af rétttrúnaðarkirkju frjálslyndra sem fengu dómsúrskurð sér í vil. Fursti sem ræður ekki eigin landamærum er harla lítils virði. Trump boðar stríð til að endurheimta frumkvæðið.

Friðurinn frá Ágsborg var úti þegar Evrópa hóf 30 ára stríðið á fyrri hluta 17. aldar. Þegar vopnaskakinu linnti þurfti sérstaka fundi til að finna ágreiningsmálin. Í hita leiksins höfðu þau gleymst.

Vesturlönd eru á leið inn í nýtt 30 ára stríð þar sem deiluefnin eru óljós og framtíðarsýn allra málsaðila óskýr. Nóbelsverðlaunahagfræðingurinn Joseph E. Stiglitz er til marks um að viðtekin heimsmynd er á hverfanda hveli. Stiglitz er hógvær maður með skýra hugsun og einbeittar skoðanir. Hann skrifaði á síðasta ári bók um að gjaldmiðill Evrópusambandsins, evran, sé ónýt. Hann boðar endurbætur, ekki byltingu.

En hvað segir Stiglitz um Trump? Ekkert, nema að Trump sé voðalegur maður. En það vita allir. Menn eins og Stiglitz eru hægfara umbótamenn á byltingartímum. Sagan kennir að slíkir menn fá ekki hljómgrunn þegar eitt hugmyndakerfi er í fæðingu en öðru hnignar. Byltingar eru tímar hávaðamanna og lætin drekkja hófsamri orðræðu. Og því miður eru byltingar sjaldnast án ofbeldis og blóðsúthellinga. Festið beltin, framundan er hlykkjóttur vegur með hárri slysatíðni.

 


mbl.is Varar við uppgangi popúlista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innflutningur á glæpamönnum

Schengen-svæðið er landamæralaust frá Reykjavík til Riga í Lettlandi. Glæpamenn frá allri Evrópu eiga frjálsa för til Íslands að stunda sína iðju.

Ísland varð aðili að Schengen-svæðinu vegna þess að Halldór Ásgrímsson ráðherra vildi Ísland inn í Evrópusambandið.

Hugmyndafræðin að baki Schengen er sú sama og Evrópusambandsins. Sú hugmyndafræði er gjaldþrota.

Löngu tímabært er að Ísland hætti Schengen-samstarfinu og taki upp virkt landamæraeftirlit.


mbl.is Koma til að brjóta af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband