Vondir fjölmiðlar, verri blaðamenn - 2 tillögur

Almennt er lélegt ástand á íslenskum fjölmiðlum. Þeir eru flestir hverjir hlutdrægir og óvandaðir í vinnubrögðum. Blaðamenn líkjast æ meira almannatenglum og hanna atburðarás fremur en að segja fréttir.

Aiden White á Ethical Journalism Network dregur saman 5 kjarnaatriði blaðamennsku. Atriðin fimm eru samþjöppun á um 400 siðareglum blaðamanna á alþjóðavísu.

1. Nákvæmni, byggja fréttir á staðreyndum og fara rétt með.
2. Sjálfstæði, vera ekki málpípa.
3. Óhlutdrægni, segja frá báðum (öllum) hliðum máls.
4. Mannúð, upplýsa en ekki meiða.
5. Ábyrgð, leiðrétta og viðurkenna mistök.

Íslenskir blaðamenn kolfalla reglulega á öllum 5 kjaraatriðunum og gera ekkert til að bæta sig. Fagleg umræða blaðamanna er í skötulíki.

Lélegu fjölmiðlarnir íslensku vilja ríkisframlag til að auka framboðið af vondri blaðamennsku. Það yrði bjarnargreiði við þjóðina að rétta fjölmiðlum fjármuni til að villa og trylla umræðuna.

En tvær tillögur má ræða.

Í fyrsta lagi að kippa RÚV af auglýsingamarkaði. Auglýsingafé leitaði þar með til annarra miðla sem bættu þar með afkomu sína. Að vísu færi drjúgt til Facebook og Google en við búum ekki í fullkomnum heimi.

Í öðru lagi að fjármagna samkeppnissjóð þangað sem fjölmiðlar/blaðamenn gætu sótt um til að vinna að tilteknum afmörkuðum verkefnum. Fagráð færi yfir umsóknir og veitti fé til verðugra. Fagleg vitund ykist við þetta fyrirkomulag og veitir ekki af. 


mbl.is Fjölmiðlaskýrsla væntanleg fyrir áramót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningar sem drepa lýðræði: 10% þátttaka í netlýðræði

Lýðræði batnar ekki með netkosningum, það versnar. Reykjavíkurborg tilkynnir metþátttöku í hverfakosningum: heil 10 prósent atkvæðisbærra tóku þátt. Sem þýðir að 90 prósent sögðu pass, við nennum þessu ekki.

Talsmenn netlýðræðis og auknum fjölda kosninga um stórt og smátt gera þau reginmistök að halda að kosningar jafngildi lýðræði. Svo er ekki.

Lýðræði er ferli þar sem kosningar eru oft, en ekki alltaf, hluti af umræðu. Fjöldi kosninga er ekki mælikvarði á aukið lýðræði. Þvert á móti. Aukinn fjöldi kosninga er merki um óreiðu og upplausn. Eins og Þýskaland á fjórða áratugnum og Ísland eftir hrun bera vitni um. 

Á árdögum lýðræðis, meðal Aþenumanna til forna, kom umræðan fyrst en kosningarnar síðar. Lýðræði án umræðu er eins og þorskur á þurru landi, á sér ekki lífs von.     


mbl.is 76 verkefni valin í íbúakosningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppstokkun óvinaímynda

Óvinaímyndir eru rótgrónar í stjórnmálum. Fátt er jafn öflugt og óvinaímynd til að halda flokksliðinu saman. Stjórnmálaöfl eru alltaf meðvitaðri um andstæðinginn en um eigin stefnu. Stjórnmálastefna er greining og framtíðarsýn, allt byggt á orðum, en andstæðingurinn er hér og nú, mældur í styrk og áhrifum upp á prósentubrot.

Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar kallar á uppstokkun á óvinaímynd, einkum þeirra tveggja fyrst nefndu.

Óvinaímynd er svo sterkt afl að hún lifir af gjörbreyttar aðstæður. Gagnkvæm óvinaímynd sjálfstæðismanna og vinstri grænna (þar áður sósíalista/alþýðubandalagsmanna) varð til í kalda stríðinu sem lauk fyrir aldarfjórðungi. Herinn fór úr landi 2006 en skildi eftir sig fullmannaðar skotgrafir svarinna andstæðinga í íslenskum stjórnmálum.

Einhverjum mun reynast ofviða að skipta út óvinaímynd fyrir raunsæi. Við lifum í sagnaheimi og hvert okkar á sín uppáhalds tröll sem við gefum ekki eftir fyrr en í fulla hnefana.

 


mbl.is Breið stjórn og uppbygging – kunnuglegt?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. nóvember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband