Kirkjan, siðferði og lög

Líkt og margar starfsstéttir búa prestar við siðareglur. Siðanefndir starfsstétta meta kærur og skrifa úrskurði sem ætlaðir eru til siðbótar. Öllum stéttum er hollt að búa að aðhaldi skráðra siðareglna.

Aftur vandast mál þegar álitaefni siðanefnda snúa að mögulegum lögbrotum. Lög landsins eru æðri faglegum siðareglum og þar gilda strangari reglur um málsmeðferð en hjá siðanefndum starfsstétta. Siðanefnd blaðamanna tók ákvörðun fyrir mörgum árum að fjalla ekki um mál sem jafnframt væru til meðferðar dómstóla.

Kirkjan virðist hafa ratað í mál sem áhöld eru um hvort eigi heima hjá siðaráði eða kalli á lögreglurannsókn. Í ljósi erfiðra mála sem mætt hafa á kirkjunni á liðnum árum kemur ókunnugum spánskt fyrir sjónir að verkferlar kirkjunnar skuli ekki vera skýrari en raun ber vitni.

 


mbl.is Mögulegt trúnaðarbrot á kirkjuþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingið ræður, ekki forsetinn

Þingræði var komið á hérlendis 40 árum áður en lýðveldið var stofnað. Þingræðið felur í sér að meirihluti þingsins ber ábyrgð á ríkisstjórn hverju sinni. 

Aðeins í undantekningatilvikum kemur til kasta forsetans. Ef alþingi mistekst að mynda meirihluta og viðvarandi stjórnarkreppa blasir við, talin í misserum fremur en mánuðum, ætti að beita forsetavaldi til að skipa utanþingsstjórn.

Forsetinn þjónar þjóðinni, lýðveldinu og lýðræðinu best þegar hann skiptir sér ekki af málum nema í neyð. Ekkert neyðarástand blasir við og því farsælast að forsetinn sinni táknrænum athöfnum en leyfi þingheimi að ráða fram úr sínum málum.


mbl.is Guðni stýrir meira en forverar hans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veðrið breytist - engar fréttir þar

Veðurfar á jörðinni tekur breytingum. Um árið 1000 var hlýskeið. Norrænir menn byggðu Grænland og stunduðu kvikfjárrækt. Íslendingar bjuggu í stórum skálum og ornuðu sér við langelda.

Um 1300 tók að kólna. Byggð á Grænlandi lagðist af og Íslendingar gerðu óupphitaða baðstofu að helsta íverustað sínum innan veggja heimilisins. Kuldatímabilið varir fram á 19. öld og er kallað litla ísöld.

Fyrir fáeinum árum, rétt áðan á mælikvarða veðurfarsins, þóttust vísindamenn sjá merki um að mennskar athafnir, einkum notkun jarðefnaeldsneytis, ylli hlýnun. En þeir skiptu óðara um skoðun og kalla hlýnunina núna ,,breytingar" en halda fast við mennskar orsakir.

Nokkrir gamlingjar á sviði náttúruvísinda fóru yfir helstu álitamálin. Í eldri bloggfærslu:

Fred Singer er á tíræðisaldri og prófessor í umhverfisvísindum. Hann segir engar sannanir fyrir hlýnun af mannavöldum.

Norsk-ameríski nóbelsverðlaunahafinn Ivar Giaver segir loftslagsvísindin í höndum sértrúarmanna sem brjóti meginreglur vísindanna um að leita sannleikans. Ivar er 88 ára.

Carl-Otto Weiss er þýskur vísindamaður. Hann sýnir fram á að loftslagsbreytingar eru náttúrulegar sveiflur; ekki af mannavöldum. Carl-Otto er 76 ára.

Freeman Dyson prófessor í Princeton er með þrjá yfir nírætt. Leggjum ekki trúnað á reiknilíkönin um að jörðin verði óbyggileg er hans viðhorf. Þvert á móti er jörðin lífvænlegri en áður.

Með orðum loftslagsvísindamannsins Roy Spencer; veðrið breytist, með eða án tilverknaðar okkar.


mbl.is Loftslagsbreytingar munu versna frekar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýsköpun stjórnmálanna

Stjórnmálin lentu í kreppu eftir hrun. Einkenni kreppunnar birtust í sterkum sveiflum á fylgi, risi og falli vinstriflokka 2009 og 2013, annars vegar og hins vegar fjölgun þingflokka - þeir eru átta núna en voru 4 - 5 alla lýðveldissöguna.

Annað einkenni eftirhrunsstjórnmála er stórar allsherjarlausnir. Sumar mistókust, ESB-umsóknin og stjórnarskrárbyltingin, á meðan aðrar lukkuðust, skuldaleiðrétting heimilanna.

Þriðja einkennið er eineltis- og útlokunarhegðun í stjórnmálum. Smámál voru blásin upp í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum til að réttlæta einelti, bankareikningur eiginkonu eins forsætisráðherra og undirskrift föður annars.

Nýsköpun stjórnmálanna felst í því að gera þau um það bil eðlileg á ný.


mbl.is „Þungur hugur í mörgum þingmönnum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. nóvember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband