Hvað er Rauði krossinn að flytja inn í landið?

Rauði krossinn fær fjármuni frá ríkinu til að aðstoða fólk í vanda á fjarlægum slóðum. Rauði krossinn fær einnig fjármuni og heimild frá yfirvöldum að skjóta skjólshúsi yfir framandi fólk í neyð og bjóða þeim heimili á Íslandi.

Augljóst er af dómi héraðsdóms í málefnum tiltekinnar fjölskyldu að Rauði krossinn hefur algerlega brugðist þegar þessi fjölskylda fékk landvist. Brotið er tvíþætt. Í fyrsta lagi að ganga ekki úr skugga um að fjölskyldan væri tæk í íslenska menningu. Í öðru lagi að fylgja fjölskyldunni ekki eftir til að hún myndi aðlagast íslenskum siðum og háttum.

Í ljósi dómsins verður að krefja Rauða krossinn svara um hvaða ráðstafanir stofnunin hyggst gera til að mál af þessu tagi endurtaki sig ekki.


mbl.is Faðir dæmdur fyrir kynferðisbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin hætta á stöðnun, heldur óstöðugleika

Íslenska hagkerfið er galopið, erlendar fjárfestingar flæða inn í landið. Íslenskir námsmenn fara í erlenda háskóla og fyrirtæki hér eiga í margvíslegu samstarfi við útlend. Það er engin hætta á stöðnun í þjóðfélaginu.

Á hinn bóginn er veruleg hætta á pólitískum óstöðugleika sem myndi bæði flæma burt erlenda fjárfestingu, valda lausatökum á efnahagsmálum og og auka úlfúð í samfélaginu.

Þess vegna þurfum við sterka ríkisstjórn fárra flokka sem mynda breidd í stjórnmálum. Aðeins ein slík er í boði. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks.


mbl.is Ríkisstjórn stöðnunar blasi við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrimenn, málamiðlanir og byltingin

Vinstrimenn reyna núna margir hverjir að koma í veg fyrir að Vinstri grænir myndi ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Það er ekki spurt um málefni heldur alið á andúð og tortryggni.

Í fortíðinni voru vinstriflokkar marxískir byltingarflokkar, jafnvel Alþýðuflokkurinn á árdögum sínum fyrir hundrað árum. Byltingarhugsjónin er annað-hvort-eða-stjórnmál, leyfir ekki málamiðlanir.

Á síðustu árum og áratugum eru vinstriflokkarnir í reynd orðnir kerfisflokkar. Þeir stefna ekki að byltingu. Það sást best í tíð einu hreinu vinstristjórnar lýðveldissögunnar, Jóhönnustjórninni 2009-2013.

Í efnahagsmálum, sem eru ær og kýr sígildra marxista, gerði Jóhönnustjórnin nákvæmlega ekki neitt til að breyta ríkjandi skipulagi. Frá og með kjörtímabilinu 2009-2013 viðurkenna vinstrimenn að ríkjandi samfélagsskipun sé sú besta sem völ er á - svona í meginatriðum.

Róttækni Jóhönnustjórnarinnar birtist í tveim málum, nátengdum: ESB-umsókninni og stjórnarskrármálinu. Í báðum tilvikum var stjórnin gerð afturreka. Það var ekki nægilegt fylgi í samfélaginu fyrir ESB-stjórnarskrá.

Lýðræðisstjórnmál byggja á málamiðlunum. Ef til verður ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks verður það merkisatburður í sögu lýðveldisins. Ekki síðan í nýsköpunarstjórninni 1944-1947 hafa sjálfstæðismenn og sósíalistar, forverar Vinstri grænna, starfað saman í ríkisstjórn.

Nýsköpunarstjórnin er fyrsta þingstjórn lýðveldisins. Stjórnin lagði grunninn að íslenska velferðarkerfinu með blönduðu hagkerfi, almannatryggingum og menntun fyrir alla.

Ný ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum innanborðs sýndi að stjórnmálamenning okkar sé komin til þroska. Í nafni lýðræðislegra málamiðlana geta flokkar yst á hvorum væng stjórnmálanna náð samkomulagi til heilla fyrir land og þjóð. Það yrði sigur lýðræðis yfir andúð og tortryggni.


mbl.is Óformlegum viðræðum haldið áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brexit, Viðreisn og Samfylking

Stærsta viðskiptaland okkar í Evrópusambandinu, Bretland, hættir ESB-aðild eftir tvö ár. Tveir einsmálsstjórnmálaflokkar á Íslandi, Viðreisn og Samfylking, eru með það á stefnuskrá sinni að viðskiptakjör Íslands við Bretland verði ákveðin í Brussel, af Evrópusambandinu.

Ef Íslandi væri ESB-ríki, líkt og Viðreisn og Samfylking vilja, yrði nákvæmlega ekkert tillit tekið til íslenskra hagsmuna í samskiptum milli ESB annars vegar og hins vegar Bretlands.

Þegar það rennur upp fyrir fólki hversu hættuleg stefna Viðreisnar og Samfylkingar er íslenskum hagsmunum verða flokkarnir enn minni en þeir eru í dag. Og lengi getur smátt minnkað.


mbl.is Fara út með eða án samnings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. nóvember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband