Rúst eða ekki rúst: hver er staðreyndin?

Stjórnarandstaðan, sem Björt framtíð tilheyrði fram að áramótum, taldi heilbrigðiskerfið í rúst. Nýr heilbrigðisráðherra, formaður Bjartrar framtíðar, segir núna að kerfið sé ekki rúst þótt eitthvað þurfi þar að lagfæra.

Fjölmiðlar, já, þessir sem gorta sig af staðreyndum, hljóta að kveða upp úr: rúst eða ekki rúst. Annað tveggja er augljóslega rangt.

Eða er þetta kannski spurning um sjónarhorn? Einn sér rústir en annar ekki. Spurningin er aðeins hvort viðkomandi sé í meirihluta eða minnihluta á alþingi.

 


mbl.is „Ekki rjúkandi rúst“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki-fréttir af alþingi eru falsfréttir

Það er ekki frétt að stjórnarandstaðan á alþingi sé óánægð. Ekki frekar en að það sé frétt að fólk mæti í vinnuna. Sjálfsagðir hlutir sæta ekki tíðindum.

Ekki-fréttir af óánægju stjórnarandstöðunnar eru ein gerð falsfrétta. Reynt er að telja okkur trú um að hundshaus minnihlutans sé tíðindi.

Aftur væri það frétt ef stjórnarandstaðan viðurkenndi að þingræði felur í sér að meirihlutinn á hverjum tíma eigi að koma fram í þingvilja. En það er langt í þá frétt.


mbl.is Buðu ákveðnum einstaklingum formennsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsendabækur, falsfréttir og sögulok

Heimsendabækur eins og 1984 eftir Orwell og Veröld ný og fögur eftir Huxley voru skrifaðar á tímabilaskiptum í vestrænni sögu. Eftir seinna stríð stóð kommúnisminn, grár fyrir járnum, sem valkostur við vestrænt lýðræðisskipulag.

Orwell og Huxley eru aftur í tísku. Ástæðan er að stórpólitískir atburðir, Brexit og Trump, skora viðtekna hugmyndafræði alþjóðahyggjunnar á hólm, líkt og kommúnisminn ógnaði vesturlöndum fyrir 70 árum.

Falsfréttir eru sagðar orsök söguloka alþjóðahyggjunnar. Það er klén greining. Skáldskapur í fjölmiðlum og tíst samfélagsmiðla breyta ekki gangi sögunnar.

Ásakanir um falsfréttir og valkvæðar staðreyndir eru mótmæli þeirra sem syrgja tapaða alþjóðahyggju og óttast framtíðina. Óttinn er skiljanlegur. Framtíðin er í meiri óvissu núna en allar götur frá hátindi kalda stríðsins. Sögulok tímabils marka upphaf annars. Við vitum ekki hvaða.

 


mbl.is Sala á 1984 rýkur upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reykjanesbær og næsta hrun

Viðskiptaráð leggur til Reykjanesbæjarleiðina að næsta hruni. Sniðmát Reykjanesbæjar er að selja fasteignir sínar og verða gjaldþrota nokkrum árum síðar.

Sniðmátið felur í sér að einkaaðilar mergsjúgi bæjarsjóð/ríkissjóð í gegnum leigutekjur af opinberum fasteignum.

Viðskiptaráð starfar við að finna leiðir til að sækja skattfé og færa það einkaaðilum á silfurfati. Örugg leið að útvega einkaaðilum skattfé er að stela, afsakið selja, fasteignir ríkisins til einkaaðila með langtímaleigusamningum.

Í þessu fyrirkomulagi er engin samkeppni. Einkaaðilar fá ríkistryggða mjólkurkú sem má blóðmjólka fram að næsta hruni.


mbl.is Ríkið selji hundruð fasteigna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband