Vg hyglað, Pírötum refsað - þjóðin er klofin

Vinstri grænum er hyglað fyrir að standa utan ríkisstjórn og þeir bæta hressilega við sig fylgi. Píratar, sem vildu ólmir komast í ríkisstjórn, er refsað og eru á pari við lélega útkomu í kosningum.

Stjórnarflokkarnir fá engin verðlaun fyrir að leysa meirihlutakreppuna á alþingi. Fylgi Sjálfstæðisflokksins gefur eftir. Lítil eftirspurn er eftir Viðreisn og Björt framtíð missir fylgi.

Framsóknarflokkurinn geldur forystukreppu og er fastur í tíu prósent fylgi. Samfylkingin er þar sem hún á heima, í kjallaranum. 

Samkvæmt könnun MMR er þjóðin álíka klofin og í kosningunum í haust þegar metfjöldi framboða fékk kosningu til alþingis.

Stjórnmálaókyrrðin heldur áfram á meðan ekki myndast skýrari og meira afgerandi pólitískir valkostir.


mbl.is VG bætir verulega við sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Elítur og hjarðhegðun umræðustjóra

Sigur Trump í Bandaríkjunum og Brexit-kosningarnar í Bretlandi eru án ef ósigur valdaelítunnar í viðkomandi ríkjum. Til skamms tíma stjórnuðu valdaelíturnar umræðunni í gegnum fjölmiðla.

Með netbyltingunni valdeflist almenningur og umræðan verður frjálsari en jafnframt ábyrgðalausari. Óli Björn Kárason þingmaður skrifar grein í Morgunblaðið um umræðustjóra og Eyjan gerir útdrátt.

Umræðustjóri getur hver sem er orðið, hvort heldur á fésbók eða bloggi, í þeim skilningi er að allir geta stofnað fjölmiðil án tilkostnaðar.

En það er annað einkenni á nýmiðlunni, en fjöldi þeirra sem taka þátt, sem er ástæða til að vekja máls á. Það einkenni lýtur að hjarðhegðun umræðustjóranna. Á hverjum tíma virðist þó nokkur hluti þeirra vera í leit að máli til að brjálast yfir.

Brjálæðið, sem stundum gagntekur umræðuna, er hrein og klár múgsefjun þar sem dómgreindin er lokuð inni og móðursýki tekur völdin. Þessi múgsefjun er ekki sjálfssprottin heldur afurð umræðustjóranna.

Ef fram heldur sem horfir verður horft um öxl með söknuði eftir valdaelítum.

 

 


Drengjafyrirlitning er komin í tísku

Drengir eru heimskir fótboltastrákar sem nenna ekki að mennta sig, eru skilaboðin sem lesa má úr orðum framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu. Tilefnið er hagtölur sem sýna að 46 prósent kvenna á aldursbilinu 25 til 64 ára er með háskólamenntun en aðeins rúm 30 prósent karla á þessum aldri býr að háskólanámi.

Hagtölur sýna að drengir falla frekar úr námi en stúlkur og þeir sækja síður háskólanám. Líkleg skýring á þessari þróun er breyting á skólastarfi síðustu áratugi. Þáverandi varavinnuafl heimilanna, konur, yfirtók meira og minna grunnskólann og kvenvæddi starfið.

Með því að drengir höfðu konur sem fulltrúa menntunar, þ.e. kennara, fyrir augum sér sendi samfélagið þeim þau skilaboð að menntun væri kvennaheimur. Ráðstafanir til að bæta grunnþætti menntunar, t.d. lestur, eru gerðar á forsendum kvenna.

Þannig er lestrarátak kallað ,,yndislestur" en það er kvenlægt hugtak. Að bjóða dreng upp á ,,yndislestur" er eins og gefa stúlku bleika járnbrautalest að leika sér með. Hvorttveggja er óekta.

Menntunarskortur karla vex hröðum skrefum í hlutfalli við menntun kvenna. Drengjafyrirlitningin um heimska fótboltastráka er komin í tísku enda styðst hún við áþreifanlegar breytingar í samfélaginu.

 

 


Bloggfærslur 18. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband