Biskup boðar aðgerðakirkju, þjóðkirkjan er dauð

Í stað þess að biðjast afsökunar á framferði embættismanna kirkjunnar í Laugarneskirkju, þar hvatt var til lögleysu og valdstjórnin gerð að fasistum, boðar biskup Íslands framhald á nýrri kirkjustefnu sem kenna má við aðgerðakirkju. Gripið skal inn í lög og reglur eftir því sem pólitískir vindar blása, eru skilaboð biskups.

Þjóðkirkjan, eins og við höfum þekkt hana í mannsaldra, er þar með dauð. Pólitísk og trúarleg rök hníga til þess að við leggjum niður þjóðkirkjuna með lagasetningu á alþingi.

Pólitísku rökin eru augljós. Aðgerðakirkja sem býður yfirvöldum birginn og grefur undan virðingu fyrir lögum og rétti getur ekki verið á framfæri hins opinbera. Sjálfur höfundur kristni á Íslandi, Þorgeir Ljósvetningagoði, sagði fyrir meira en þúsund árum að við yrðum að hafa ein lög í landinu, annars yrði hér borgarastyrjöld. Aðgerðakirkja sem teflir fram sínum eigin lögum gegn lögum alþingis slítur í sundur friðinn.

Trúarleg rök fyrir afnámi þjóðkirkjunnar fá staðfestingu í orðum biskups sjálfs, sem boðar samstöðu með lítilmagnanum. Fyrir laun eins þjóðkirkjuprests má metta marga munna í Afríku og mennta marga tugi indverskra krakka. Embættismenn kirkjunnar eru á opinberri launaskrá og sem slíkir afætur á hagsmunum lítilmagnans um víða veröld, samkvæmt orðum biskups. Afnám þjóðkirkjunnar stóreykur getu okkar að stunda þróunaraðstoð til hagsbóta þeim sem líða skort.

Þjóðarsamstaða um afnám þjóðkirkjunnar gefur lúterskum aðgerðasinnum færi á að stunda sína pólitík án kvaða sem embættaskylda leggur þeim á herðar jafnframt því sem hundruð milljóna króna sparast árlega er gætu farið til þróunarlanda, til hjálpar fátækum.

Biskup Íslands hlýtur að fagna tillögum um afnám þjóðkirkjunnar. Þar með fær nýja kirkjustefnan, aðgerðakirkjan, svigrúm til að stunda sína pólitík án íþyngjandi afskipta ríkisrekinnar kirkju.


mbl.is Hefði mátt undirbúa betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband