Skilgreining á öfgatrú

Trú er sammannleg í þeirri merkingu að hún hefur fylgt manninum frá örófi alda. Með fastri búsetu, við landbúnaðarbyltinguna fyrir tíu þúsund árum, verða til skipulögð trúarbrögð sem fléttuð eru saman við veraldlegt vald.

Eingyðistrú við upphaf okkar tímatals leggur drög að náinni samvinnu trúarvalds og veraldlegs. Snemma á miðöldum kemur fram önnur útgáfa eingyðistrúar, múslímatrú, sem gengur í sömu átt.

Siðbótin í lok miðalda færði trúarvald til veraldlegra fursta og einvaldskonunga. Franska byltingin laust fyrir 1800 hnykkti á aðskilnaði trúar og réttarríkis. Trúfrelsi og vaxandi trúleysi verður ráðandi á vesturlöndum. Trú eða trúleysi sérhvers borgara verður einkamál hans.

Í ljósi vestrænnar sögu er skilgreining á öfgatrú þessi: trú er krefst tiltekinnar breytni einstaklingsins á opinberum vettvangi er öfgar sem ætti að úthýsa úr veraldlegu samfélagi. 


Baráttan um Ísland og peningatré góða fólksins

Tvær fylkingar takast á um Ísland, skrifar Þórður Snær Júlíusson í leiðara Kjarnans. Hægrimenn undir merkjum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og vinstrimenn í Samfylkingu, Pírötum, Viðreisn, Vinstri grænum og Bjartri framtíð. Þórður Snær fylgir vinstrimönnum og skrifar

Sam­an­dregið er fólk til­búið að hafna ótrú­legri mis­skipt­ingu eigna og auðs. Það er að taka afstöðu með auk­inni sam­neyslu og betra vel­ferð­ar­kerfi. Þangað sækir stærsti hluti Íslend­inga enda mestan hluta lífs­gæða sinna.

Miðað við dreifingu leiðara Þórðar Snæs á samfélagsmiðlum er augljóst að góða fólkið finnur samstöðu með boðskapnum.

Misskipting auðs er ekki meiri en svo að ríkisútvarp vinstrimanna, RÚV, viðurkennir að tekjudreifing hefur aldrei verið jafnari frá því mælingar hófust.

Orð Þórðar Snæs um Íslendingar sæki stærstan hluta lífsgæða sinna til velferðarkerfisins er hreinræktaður sósíalismi frá 19du öld sem mistókst á þeirri 20stu. Útfærsla Þórðar Snæs er sögulaus 21stu aldar glópska: ,,mark­aðsvæða sum kerfi og lýð­ræð­i­svæða önn­ur."

Ha? Jú, þið lásuð rétt. Þórður Snær vill markaðsvæðingu til að auka samneyslu. 

Hversdagslegur skilningur á markaðsvæðingu er að vara eða þjónusta er sett á markað þar sem sumir tapa en aðrir græða. Ef læknisþjónusta og landbúnaðarvörur færu á markað myndi samneysla minnka og ójöfnuður aukast. Ástæðan fyrir því að við rekum skóla, heilbrigðisþjónustu og að hluta landbúnað undir formerkjum samneyslu er að við viljum ná markmiðum um jöfnuð.

Nú má deila um hvort við höfum gengið of langt eða of skammt í jöfnuði. Það er pólitískt álitamál. En við getum ekki markaðsvætt til að auka jöfnuð. Ekki frekar en að við getum virkjað fallvötn til að auka ósnortna náttúru. Eða búið til hringlaga þríhyrning.

Markaðsvæðing og aukin samneysla er mótsögn. Hún gengur ekki upp nema í huga góða fólksins sem trúir að peningar vaxi á trjánum. Leiðin til allsnægta sé að stofna samyrkjubú og rækta peningatré. 

En það er rétt hjá Þórði Snæ að tvær fylkingar berjast um Ísland. Góða fólkið með drauma um markaðsvæddan jöfnuð, ESB-aðild sem lausn á öllum vanda og fjölmenningu til höfuðs vestrænum lífsháttum annars vegar og hins vegar raunsæisfólkið sem metur meðalhófið og almenna skynsemi en hafnar kollsteypu á fyrirkomulagi sem reynslan sýnir að virki.


Bloggfærslur 19. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband