Feðraveldi, trúfrelsi og langtímaófriður

Í múslímskum arabaríkjum var stöðugt stjórnarfar, víðast hvar, á síðasta þriðjungi síðustu aldar. Stjórnarfarið byggði á feðraveldi sem sótti m.a. rök til kóransins, trúarrits múslíma. Feðraveldið útskýrir stöðugleika stjórnarfars í Sögu arabaþjóða eftir bresk-líbanska sagnfræðinginn Albert Hourani.

Valdstjórn feðranna var nátengd stöðu þeirra í samfélaginu þar karlmaðurinn er höfuð fjölskyldunnar og konur annars flokks þegnar. Arabaþjóðir stofnuðu ríki sín á grunni valdaætta. Eitt þeirra, Sádí-Arabía, heitir eftir Sádí-fjölskyldunni sem stofnaði konungsríkið árið 1932. Á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar tóku einræðisherrar völdin í sumum ríkjum, t.d. Líbíu, Sýrlandi og Írak. Valdagrunnur þeirra var ættin með sína trúarsannfæringu. Byggt var á forsendum feðraveldis þar sem karlinn útdeildi gæðum en fékk í staðin hollustu.

Innrás Bandaríkjanna í Írak 2003 steypti af stóli feðraveldi Saddam Hussein og sona hans. Bandaríkjamenn ætluðu sér að smíða lýðræðisríki í Írak. Feðraveldið hafnaði leiðsögn Bandaríkjanna um hvernig ætti að setja saman þjóðríki. Bandaríkin settu saman neyðaráætlun í staðinn, sem fól í sér uppgjöf á hugmyndinni um lýðræði - skilmerkilega lýst í bók Thomas E. Ricks, Veðmálið.

Afleiðingar innrásar Bandaríkjanna í Írak voru að feðraveldi í öðrum arabaríkjum riðuðu til falls, t.d. í Líbíu og Sýrlandi. Arabíska vorið, eins og það var kallað, var lýðræðishreyfing sem breiddi úr sér í miðausturlöndum og Norður-Afríku. Aðeins í einu ríki, Túnis, leysti arabíska vorið ekki úr læðingi langvinn átök milli stríðandi fylkinga, ef ekki hreinræktuð borgarastríð.

Malise Ruthven gerir því skóna í grein í New York Review of Books að uppgangur Ríkis íslam í arabaríkjum sé afleiðing af hruni feðraveldisins. Þegar valdstjórn missir tökin á samfélaginu myndast rými fyrir hreyfingar sem sem biðla til eilífra sanninda sem eingöngu fæst í trú. Feðraveldið hélt aftur af trúaröfgum og Baath-flokkar Hussein í Írak og Assad í Sýrlandi eru fremur veraldlegir á múslímskan mælikvarða.

Múslímar skiptast í tvær meginfylkingar, súnna og shíta. Verkefnið sem múslímar standa frammi fyrir er tvíþætt. Í fyrsta lagi að sættast á trúfrelsi, í það minnsta umburðarlyndi í trúmálum. Í öðru lagi að finna aðra tegund valdstjórnar en feðraveldi. Allar líkur eru að það muni taka kynslóðir að leiða fram lífvænlegar lausnir á þessum tvíþætta vanda. Á meðan munu þúsundir araba flýja heimkynni sín í leit að betra lífi á vesturlöndum.

 

 

 

 


Hanna Birna og sagnaheimur ósanninda

Hanna Birna Kristjánsdóttir hrökklaðist frá stjórnmálum að ósekju. Lekamálið, sem felldi hana, var DV-fjöður sem með aðstoð annarra fjölmiðla, stjórnarandstöðu á alþingi og embættismanna varð að hænsnakofa.

Dómurinn sem gekk í lekamálinu segir skýrt og ákveðið að Hanna Birna reyndi ekki að afla sér ávinnings af lekamálinu. Ekki var hlustað á dómsniðurstöðuna heldur réð sagnaheimur ósanninda ferðinni.

Hanna Birna talar um reynslu sína í viðtali:

Og það var kannski lærdómurinn minn af lekamálinu, að það var alveg sama hversu oft ég sagði sannleikann, hversu mikið ég reyndi að útskýra, það voru allir búnir að ákveða einhvern annan sannleika sem ég kannaðist aldrei við.

Sagnfræðingurinn Yuval Noah Harari sló í gegn með þeirri kenningu að maðurinn, en ekki aðrar dýrategundir, sigraði heiminn í krafti sagnakunnáttu. Maðurinn er eina tegundin sem býr til sagnaheim. Við lifum og hrærumst í sagnaheimi sem er raunverulegri en veruleikinn sjálfur, einkum og sérstaklega í stjórnmálum.

Pólitískur sagnaheimur okkar var til skamms tíma mótaður af fáeinum fjölmiðlum, umræðu á alþingi og skrafi á vinnustöðum og heimilum. Veldisvöxtur varð í þessum sagnaheimi um og upp úr síðustu aldamótum með nýmiðlun; bloggi, netfjölmiðlum og samfélagsmiðlum.

Eitt einkenni sagnaheims nýmiðlunar er að ósannindi, ýkjur og undirróður eiga greiðari leið í umræðuna. Í gömlu fjömiðlunum voru mestu ósannindin flokkuð frá því efni sem birtist opinberlega. Ritstjórar og fréttastjórar voru hliðarverðir fjölmiðla og sinntu gæðaeftirliti. Eflaust var ýmislegt kæft í fæðingu sem vel átti heima í opinberri umræðu. En gæðaeftirlitið kom í veg fyrir að hægt væri að búa til frásagnir sem áttu litla sem enga málefnalega stoð.

Í heimi nýmiðlunar er ekkert eftirlit með rökum og málefnalegum undirstöðum þeirra frásagna sem settar eru á flot. Við hrunið skaddaðist tiltrú almennings á stjórnmál almennt og stjórnvöld sérstaklega. Almenningur var tilbúinn að hlusta á meiri ýkjur og ósannindi en áður. Eftir því sem fleiri tóku undir ósannindin urðu þau trúverðugri.

Hanna Birna var ekki, frekar en aðrir stjórnmálamenn, hafin yfir gagnrýni. En lekamálið var ekki gagnrýni heldur tilbúinn sagnaheimur ósanninda.


Bloggfærslur 9. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband