Brexit, forsetakjör og lamandi Pírata-lýðræði

Forsetakjörið á Íslandi er líklegt að vera léttvægt í pólitískri umræðu í samanburði við Brexit. Systurflokkur Samfylkingar í Bretlandi, Verkamannaflokkurinn, logar í innanflokksdeilum eftir Brexit, sem flokkurinn ber þó enga ábygrð á.

Beint lýðræði, í anda Pírata, fær einnig á kjaftinn í umræðunni. Margir taka undir Kenneth Rogoff sem segir þjóðaratkvæðið í Bretlandi sýni ógöngur beina lýðræðisins.

Lýðræðisumræðan eftir Brexit byggir á tveim ólíkum forsendum. Í einn stað að samfélög verði að fá tækifæri að segja álit sitt á stærri málum, til dæmis aðild að ESB. Í annan stað er tekinn vari á að einfaldur meirihluti sé nægur til að kollvarpa ríkjandi skipulagi - og ESB-aðild Breta var hluti af ríkjandi skipulagi.

Sett í samhengi: forsetakjörið á Íslandi er ekki vefengt þótt kjörinn forseti fái langt undir 50 prósent fylgi. Brexit-kosningin í Bretlandi er harðlega gagnrýnd þótt ótvíræður meirihluti hafi hafnað ESB-aðild.

Píratar munu ekki eiga auðvelt með að selja þjóðinni þá hugmynd að beint lýðræði, þar sem meirihlutinn ræður, sé raunhæf aðferð til að leiða mál til lykta í lýðræðisríki. Hugmyndir um að smáhópar í samfélaginu, 15 til 20 prósent hópar, geti knúið fram þjóðaratkvæði um áhugamál sín eru algerlega út í bláinn eftir Brexit.

Stjórnarskrá lýðveldisins sýndi í forsetakjörinu að hún virkar vel og engin ástæða til að hrófla við henni. En Píratar vilja einmitt stokka upp stjórnarskrána. Eftir Brexit eru Píratar í bullandi vörn með þau fáu málefni sem þeir tjalda með.


mbl.is Corbyn að missa tökin á flokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB berst fyrir lífi sínu: minna lýðræði, meiri miðstýring

Fjárfestirinn George Soros segir óhjákvæmilegt að Evrópusambandið liðist í sundur eftir Brexit. Guardian tekur saman háværar kröfur um þjóðaratkvæði í ESB-ríkjum eins og Hollandi, Danmörku, Svíþjóð, Frakklandi og Þýskalandi þar sem aðild að sambandinu væri í húfi.

Gagnsókn Evrópusambandsins felst í meiri og víðtækari samruna. Forseti framkvæmdastjórnar ESB, Jean-Claude Juncker, er sagður vilja nota Brexit-kreppuna til að þétta raðirnar með kröfu um að allar ESB-þjóðir taki upp evru og samþykki fullveldisframsal sem tryggi framtíð gjaldmiðilsins.

Aðeins 19 af 27 ríkjum Evrópusambandsins nota evru. Ef reynt verður að knýja á um aukinn samruna á forsendum evru-samstarfsins eykst andstaðan við ESB-aðild í þeim ríkjum sem búa við sjálfstæðan gjaldmiðil. Þá er heldur ekki stuðningur við aukinn samruna í þeim ríkjum sem þegar nota sameiginlega gjaldmiðil, t.d. Frakklandi, Hollandi og Austurríki.

Frakkar og Þjóðverjar eru sagðir tilbúnir með áætlun um að blása lífi í dauðvona Evrópusamband. Þá áætlun verður að laga að pólitískum veruleika, ef hún á að eiga minnstu von um að heppnast. Pólitíski veruleikinn er sá að elsta lýðræðisríki ESB hafnaði sambandinu. Ef svarið frá Brussel verður minna lýðræði, meiri miðstýring er áætlunin steindauð.


mbl.is Liggur ekki á að ganga úr ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband