Trú, hús og einkamál

Fríkirkjan hýsir þann hluta múslímasafnaðarins sem úthýst var úr Ýmishúsinu. Hjörtur Magni prestur fríkirkjusafnaðar segir húsaskjólið kærleiksverk.

Hús eru löngum miðdepill trúariðkana. Rómverjar, sem skipulögðu borgir fyrir daga kristni, byggðu tilbeiðsluhús sem ásamt markaðstorgi, ráðhúsi og baðhúsi voru tákn siðmenningar og valds Rómar. Á miðöldum urðu kirkjur miðlægar í borgarskipulagi og þurfti þó ekki þéttbýli til; engin sveit var svo aum á Íslandi að ekki fyndist þar kirkjunefna.

Á þeim tímum sem við lifum er húsatrú á fallandi fæti. Fæstir koma í kirkju nema vegna athafna sem sérstaklega kalla á viðveru, s.s. skírn, jarðaför eða brúðkaup.

Þótt rök megi færa fyrir því að kristni sé menningararfleifð, sem ætti að rækta að marki, er trú einkamál. Hjörtur Magni fríkirkjuprestur ætti að segja þrasgjörnu múslímunum að hér um slóðir iðka menn trú sína heima hjá sér. En Hirti Magna finnst kannski skemmtilegra að hafa heldur einhverja en öngva í kirkjunni sinni. Ekki síst ef hægt er að kalla það kærleiksverk.

 


Forstakosningar: stjórnarskráin virkar

Andstæðingar stjórnarskrár lýðveldisins fóru mikinn í aðdraganda forsetakosninganna, þegar útlit var fyrir að um og yfir 20 frambjóðendur tækju slaginn. Lagst var í útreikninga um að einhver gæti hreppt forsetaembættið úr á 20 prósent fylgi. Þetta þóttu rök fyrir nauðsyn nýrrar stjórnarskrár.

Þegar til átti að taka urðu framboðin níu. Frambjóðendur hafa kynnt sig og áherslur sínar í fjölmiðlum og á fundum. Sigurvegar kosninganna mun að líkum fá á bilinu 35 til 45 prósent fylgi. Sem er vel ásættanlegt í fjölræðissamfélagi eins og okkar.

Forsetakosningarnar 2016 staðfesta enn og aftur að stjórnarskrá lýðveldisins virkar og algerlega ástæðulaust að breyta henni í fyrirsjáanlegri framtíð.

 


Kennarar og vantraustið á nærlýðræði

Sveitarfélög eru stjórnsýslustigið næst almenningi og þau reka grunnskólana. Veigamikil ástæða fyrir höfnun grunnskólakennara á nýjum kjarasamningum er vantraust í garð sveitarfélga.

Flestir kennarar eru íbúar þess sveitarfélags sem rekur skólann sem þeir starfa í og ættu að hafa beinni áhrif á stefnumótun sveitarfélagsins í menntamálum en t.d. framhaldsskólakennarar, sem heyra undir menntamálaráðuneytið.

Reynsla grunnskólakennara virðist vera að dyntir hvers sveitarfélags ráði ferðinni í túlkun kjarasamninga og það veldur tortryggni. Nálægð kennara við stjórnsýslustigið, sem kjaramál þeirra heyra undir, dregur ekki úr tortryggninni heldur þvert á móti eykur hana, sem segir all nokkra sögu um vankanta nærlýðræðis.

Kostir nærlýðræðis, samkvæmt kenningunni, er að það sé sveigjanlegt og lagi sig að aðstæðum. Ókostnirnir eru að nærlýðræði skortir meginreglur. Bæjaryfirvöld hafa sína hentisemi í útfærslu kjarasamninga og kennarar telja hagsmunum sínum ekki vel borgið hjá yfirvaldinu.

Vantraust grunnskólakennara á sveitarfélögum gefur tilefni til umræðu um kosti og galla nærlýðræðis.

 


mbl.is Kennarar treysti ekki sveitarfélögunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband