ESB-stjórn Viðreisnar og Pírata

Þingmaður Pírata segir á Vísi að óformlegar þreifingar séu á milli Pírata og Viðreisnar um stjórnarsamstarf að loknum kosningum. Í báðum flokkum, Viðreisn þó sérstaklega, er vilji til að gera Ísland að ESB-ríki.

Líklegir samstarfsflokkar Viðreisnar og Pírata í ríkisstjórn eru Vinstri grænir og Samfylking sem stóðu fyrir misheppnuðu ESB-umsókninni 2009-2013.

Eina örugga leiðin til að koma í veg fyrir nýja ESB-stjórn er að Sjálfstæðisflokkurinn fái sterka kosningu þann 29. október.


Guðni Th. reddar ekki Pírata-óreiðu

Ef Píratar verða stærsti stjórnmálaflokkur landsins eftir næstu kosningar getur Guðni Th. forseti ekki vikist undan því að veita Pírötum umboð til stjórnarmyndunar. Lýðræðislegra meginreglur og hefðir og venjur segja að sigurvegari kosninga og/eða stærsti flokkurinn fái stjórnarmyndunarumboð.

Píratar eru andófsflokkur sem vill bylta stjórnskipun landsins og stokka upp undirstöðuatvinnuvegi. Undir ríkisstjórn Pírata yrði óreiða í samfélaginu þar sem ólíkir hópar tækjust á um forræði landsstjórnarinnar.

Forsetinn gerir ekki annað en að veita stjórnarmyndunarumboð. Hann mun ekki skipta sér meira af stjórnarmyndun, enda ekki til þess kosinn. 


mbl.is Forsetinn myndar ekki stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valið stendur á milli Sjálfstæðisflokks og Pírata

Sjálfstæðisflokkur og Píratar eru turnar stjórnmálanna 17 dögum fyrir kosningar. Sá flokkur sem verður ofar í kosningum fær umboð forseta Íslands til að mynda ríkisstjórn.

Aðrir flokkar en Sjálfstæðisflokkur og Píratar eru fimm flokka efniviður sem turnarnir tveir nota til að setja saman ríkisstjórn.

Í grunninn eru aðeins tveir kostir í boði 29. október: ríkisstjórn undir forsæti Sjálfstæðisflokks eða ríkisstjórn Pírata.


mbl.is Sjö flokkar á þing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn: jöfnuður og stöðugleiki

Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir jöfn tækifæri allra og stöðugleika í efnahagsmálum. Undir forystu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er meiri launajöfnuður á Íslandi en í nokkru öðru landi OECD.

Sjálfstæðisflokkurinn leiðir ríkisfjármálin þetta kjörtímabil og árangurinn er stöðug atvinna, lág verðbólga og sterkur ríkissjóður.

Í þingkosningunum 29. október stendur raunverulegt val á milli forystu Sjálfstæðisflokksins annars vegar og hins vegar Pírata, sem mælast næst stærsti flokkur landsins.

Píratar sækjast eftir umboði kjósenda til að kollsteypa Íslandi. Þeir boða nýja stjórnarskrá, tilraunir í efnahagsmálum og vilja endurvekja ESB-ferli vinstriflokkanna frá síðasta kjörtímabili.

Sjálfstæðisflokkurinn byggir pólitík sína á þjóðarhagsmunum þar sem traustir innviðir skapa öllum möguleika að búa við efnahagslegt öryggi en haga lífi sínu að öðru leyti eins og þeir kjósa.


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband