Lánsveð eyðilögð - unga fólkið tapar

Lánsveð, þar sem foreldrar lánuðu veð í sínum eignum til barnanna, voru eyðilögð með því að foreldrar sem áttu óskilvís börn lögðust upp á ríkisvaldið og heimtuðu að almannafé yrði notað til að skera foreldrana úr snörunni.

Afleiðingin er sú að lánsveð eru bönnuð og þar með takmarkast möguleikar ungs fólks á lánum til að fjármagna íbúðarkaup.

Og blessuð börnin sitja áfram heima á hótel mömmu og djúpvasa pabba.


mbl.is Tæplega 40% búa enn heima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB sem hryðjuverkasamtök - stúdentapólitík Grikkja

Varoufakis fjármálaráðherra Grikkja segir Evrópusambandið starfa eins og hryðjuverkasamtök sem breiði út ótta til að fá hótunum sínum framgengt. Tsipras forsætisráðherra talar í sömu átt, að láta ekki kúga sig til hlýðni.

Þeir félagar biðja Grikki um að segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni á morgun. Nei, segja Varoufakis og Tsipras, mun fela í sér að Grikkir fái betri samninga við lánadrottna sína í ESB.

Harla ólíklegt er að félögunum verði að ósk sinni. Fyrir það fyrsta verður mjótt á milli nei- og já-fylkinga, sem þýðir að þjóðarumboðið verður veikt, þótt nei-ið yrði ofan á. Í öðru lagi eru engar líkur á að ESB veiti Grikkjum betri kjör en stóðu til boða fyrir þjóðaratkvæði. Ef ESB léti slíkt eftir Grikkjum væri það ávísun á auknar kröfur annarra ríkja í efnahagsvanda.

Der Spiegel reynir að greina þann efnahagspólitíska ágreining sem er á milli Grikkja annars vegar og hins vegar ESB og Þjóðverja. Spiegel kemst ekki lengra en að segja Þjóðverja hlynnta efnahagsrökum hagsýnu húsmóðurinnar, Merkel, að eyða ekki um efni fram. Grikkir séu á bandi hagfræðingsins Keyns sem kenndi um miðja síðustu öld að leiðin út úr kreppu væri að auka ríkisútgjöld til að snúa hjólum atvinnulífsins í gang.

Vandinn er sá að Grikkir geta ekki aukið ríkisútgjöld nema með lánum frá ESB. Og skuldir Grikkja eru núna um 175% af þjóðarframleiðslu sem þýðir að þeir munu aldrei borgar skuldirnar - og enn síður ný lán.

Til að Grikkland vinni sig úr vandanum verður að gera róttækar breytingar á efnahags- og félagskerfi landsins. Slíkar breytingar verða ekki gerðar nema með ríkisstjórn sem sannfærð er um nauðsyn þeirra. Kenneth Rogoff, fyrrum aðalhagfræðingur Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, ráðleggur Grikkjum að þiggja fremur aðstoð á grunni mannúðar fremur en á forsendum efnahagsstefnu sem þeir þegar eru búnir að hafna.

Jeremy Warner á Telegraph er ekki eins diplómatískur og Rogoff. Eini möguleiki Grikkja er að fara úr evrunni, segir hann. Þar með gæti landið orðið samkeppnishæft á ný, þ.e. með nýjum gjaldmiðli. Warner segir Grikki geta gleymt því að stúdentapólitík Varoufakis og Tsipras skili nokkru öðru en eymd og volæði - enda henti hún ekki raunheimi.

Þegar kurlin koma öll til grafar verður ljóst að evran hentar ekki efnahagslegum raunheimi. Og það þurfti stúdentapólitík Grikkja til að sýna fram á það.

 

 


mbl.is Sakar lánardrottna um hryðjuverk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. júlí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband