Ólafur Jón og blekkingar Sigmundar Ernis

Á Hringbraut birtast reglulega pistlar undir höfundarnafninu Ólafur Jón Sívertsen. Hann segist lengi hafa búið erlendis en renni til rifja hvernig komið er fyrir opinberum málum á Fróni.

Ólafur Jón vill að lesendur trúi því að hann hafi dvalið svo lengi í útlöndum að hann sé ekki lengur skráður með kennitölu hér á landi. En hann sé engu að síður með trausta heimildamenn í stjórnarráðinu sem láti Ólafi Jóni í té upplýsingar um gang mála á bakvið tjöldin. Upp úr þessum heimildum skrifar Ólafur Jón pistla og Hringbraut gerir úr pistlunum fréttauppslátt.

Sig­mund­ur Ern­ir Rún­ars­son er dag­skrár- og rit­stjóri Hring­braut­ar. Í viðtali við mbl.is seg­ir Sigmundur Ernir Ólaf ,,kunna að vera huldu­mann". Orðrétt:

„Þetta kann að vera huldumaður.Það eru marg­ir slík­ir sem skrifa í blöðin og vef­miðlana. Meðal ann­ars í staksteina,“ seg­ir Sig­mund­ur um skrif Ólafs.

Nú er augljóst að Ólafur Jón er ekki hvorttveggja í senn einstaklingur með fullt nafn og fortíð annars vegar og hins vegar huldumaður.

Sigmundur Ernir stundar vísvitandi og af yfirlögðu ráði blekkingar gagnvart almenningi. Síðast þegar að var gáð þótti sú iðja ekki sæma fjölmiðli.

 

 

 


Samfylkingarþingmenn latastir þingmanna

Samfylkingin rekur svo lestina, en þingmenn hennar mættu á 63 fundi hver að meðaltali síðastliðinn þingvetur.

Ofanritað er úr Kjarnanum.

Latastur þingmanna Sjálfstæðisflokksins er ESB-sinninn Ragnheiður Ríkharðsdóttir.

Skylt er skeggið hökunni.


Evran er nýja kókið - og ætti að taka úr umferð

Framleiðendur vinsælasta gosdrykkjar veraldar, Coca Cola, reyndu nýja uppskrift að kók um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Nýja kókið var svar við ágengri markaðsherferð Pepsi. Óhemju fé var var varið í markaðssetningu nýja kóksins, sem kynnt var neytendum í apríl 1985.

Fólk vildi ekki nýja kókið og miðsumars 1985 var það tekið úr vöruhillum og gamla uppskriftin sett í staðin - enda var hún búin að sanna sig í áratugi. Viðskiptaritstjóri Guardian, sem er breskt blað hlynnt ESB, segir að evran sé nýja kókið og eigi að taka úr umferð.

Tilgangslaust sé að berja höfðinu við steininn. Evran er búin að fá 16 ára reynslu og virkar ekki. Hún vinnur þvert gegn tilgangi sínum, að sameina Evrópu, eins og best sést á því að Þjóðverjahatur tröllríður Evrópu nú um stundir þótt almenni Þjóðverjinn sé ekkert betur settur með evruna en aðrir íbúar evru-svæðisins.

Fyrir daga evrunnar naut Evrópusambandið velvildar almennings í álfunni. Velvildin var notuð af ESB-sinnum til að stórauka samruna ESB-ríkja þar sem evran átti að vera lykilverkfæri. Kreppan undanfarin fimm ár sýnir að stjórnmálaleiðtogar veðjuðu á rangan hest. Þótt sú leið sé hugsanleg, til að halda evrunni á lífi, að búa til miðstýrt fjármálakerfi með sameiginlega skattheimtu og fjármálastjórn á öllu evru-svæðinu, sem telur 19 ríki, þá er pólitískt óhugsandi að almenningur í Norður-Evrópu samþykkti slíkan leiðangur.

Evran er nýja kókið sem almenningur vill ekki. Því fyrr sem leiðtogar evru-ríkjanna átta sig á mistökunum og bregðast við þeim því betra, skrifar viðskiptaritstjóri Guardian.


mbl.is Yfir helmingur Þjóðverja óánægður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftirkapítalisminn - von píratískra vinstrimanna

Kapítalisminn rennur sitt skeið, rétt eins og miðaldir fyrir hálfu árþúsundi. Eftirkapítalisminn býður vinstriflokkum, einkum pírataútgáfunni, tækifæri til að verða forystuafl þjóðfélagsbreytinga. 

Þrjár meginbreytingar á kapítalismanum eru þegar hafnar og munu breyta samfélaginu til frambúðar í fyllingu tímans. Í fyrsta lagi er vinnan ekki sú nauðsyn sem hún var. Allsnægtir án aukinnar vinnu eru mögulegar þökk sé sjálfvirkni.

Í öðru lagi grafa upplýsingar undan getu markaðarins til verðlagningar. Markaðurinn byggir á skorti sem altæk upplýsingamiðlun kemur í veg fyrir að verði nýttur til ábata.

Þriðji þátturinn í afbyggingu kapítalismans er deilihagkerfið, sem starfar eftir öðrum lögmálum en markaðarins.

Ofangreind pæling er frá Paul Mason, sem er breskur fréttamaður og samfélagsrýnir, með marxíska fortíð. Kjarninn í nýrri bók hans, Postcapitalism, birtist í Guardian.

Framtíðarpæling Mason er um margt trúverðug. Vinnan er ekki lengur það sem hún var. Ungt fólk, jafnvel á Íslandi sem er fremur vinnusamt samfélag, finnur leiðir til að vinna minna og lifa á bótum.

Deilihagkerfið er orðin staðreynd og allar líkur að það vaxi. Deilihagkerfið grefur undan markaðshagkerfinu eins og við þekkjum það. Þjónusta og verðmæti skipta um hendur án þess að peningar koma við sögu. Deilihagkerfið er nokkurs konar nútímalegur sjálfsþurftarbúskapur. Munurinn er sá að í íslenska landbúnaðarsamfélaginu í gamla daga kom sjálfsþurftin til af skorti en núna er ástæðan ofgnótt. 

Kapítalisminn er í kreppu. Það sé t.d. á stóru einokunarrisunum í tæknigeiranum sem vinna gegn nýsköpun þegar hún ógnar einkaleyfum risanna. Tollabandalag Bandaríkjanna og ESB, TTIP, er með öll einkenni kapítalískra kreppuviðbragða. Hvort kreppan leiði fram aðlögun kapítalismans, líkt og hann sýndi við umbreytinguna úr framleiðslusamfélaginu í þjónustusamfélagið, eða hvort kreppan kollvarpi kapítalismanum er enn alls óvíst.

Aðrir þættir í pælingu Mason eru ekki eins sannfærandi. Til dæmis að altæk upplýsingamiðlun grafi undan mörkuðum. Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, Robert J. Schiller, sýndi fram á að verðlagning markaða byggir ekki á rökréttu samhengi upplýsinga heldur órökvísri skynjun markaðsafla á stöðu mála. Þessi órökvísa skynjun er nátengd sjálfri mennskunni og mun ekki breytast þótt allar heimsins upplýsingar séu komnar í einn tölvukubb.

Pæling Mason stendur nógu traustum fótum til að verða hluti af umræðu næstu ára um hvert stefnir með þá samfélagsgerð sem varð óumdeild á seinni hluta síðustu aldar. Breytingar eru í aðsigi.

Við, í merkingunni vestræn samfélög, stöndum frammi fyrir meiri breytingum á hag- og samfélagskerfi okkar en við höfum gert frá því fyrir fyrri heimsstyrjöld. Og það er allnokkuð verkefni.

 

 

 


Bloggfærslur 19. júlí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband