Björgólfur eldri og lærdómurinn af Hafskip

Björgólfur Guðmundsson átti Hafskip þegar Björgólfur Thor var unglingur. Hafskip fór í gjaldþrot og tröllreið viðskipta- og stjórnmálaumræðunni um miðjan níunda áratug síðustu aldar.

Björgólfur eldri fór slyppur og snauður frá Hafskipsmálum og með dóm á bakinu, sem hann reyndi síðar að fá hnekkt en fékk ekki.

Björgólfsfeðgar efnuðust í Rússaviðskiptum undir lok síðustu aldar. Þeir komu með fullar hendur fjár um aldamót, keyptu Landsbankann og Eimskip, samkeppnisaðila Hafskipa forðum daga, og eitt og annað sem var falt, t.d. Morgunblaðið.

Björgólfur eldri lærði fátt af Hafskipamálum og fór lóðbeint á hausinn með allt sitt í hruninu.

Núna segist Björgólfur yngri búinn að læra sína lexíu. Kannski er hann föðurbetrungur.


mbl.is „Fjármálaskúrkurinn snýr aftur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ánægja og andstyggð - tilfellið Gunnar Smári

Jákvætt fólk vinnur betur úr vandamálum en neikvætt. Ástæðan er sú að jákvæður hugur skynjar tækifæri og finnur úrlausnir. Neikvæð afstaða torveldar skilning og kæfir í fæðingu hugmyndir til bóta.

Eftir hrun var andstyggðin allsráðandi í samfélaginu. Oft var sama fólkið, sem lét öllum illum látum eftir hrun, og hafði farið giska hratt um gleðinnar dyr í útrásinni. Stórir draumar urðu að ösku í hruninu.

Gunnar Smári Egilsson er dæmi um hrunkvöðul sem varð að hamfaraspámanni eftir 2008. Gunnar Smári var aðalhöfundur að fjölmiðlaveldi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar Baugsstjóra. Hann stýrði m.a. útrás í Englandi og Danmörku þar sem milljarðar króna, m.a. í eigu lífeyrissjóða, brunnu upp á loftkastalabáli Gunnars Smára.

Þrátt fyrir að sjö ár séu frá hruni er Gunnar Smára enn djúpt sokkinn í heimsósómann og dælir reglulega út tilkynningum um hve allt er handónýtt og ömurlegt. Hann ætlaði að stofna stjórnmálahreyfingu um að Ísland yrði fylki í Noregi en virðist hættur við það í bili, þegar hann sá að eftirspurnin var ekki fyrir hendi. En trúr andstyggðinni klifar Gunnar Smári á því að við höfum það skítt.

Sumum líður ekki vel nema í óánægju.


mbl.is „Ísland er bara nokkuð gott“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þurfum að slá á hagvöxtinn

Þegar eftirspurn eftir vinnuafli er orðið meira en framboðið er efnahagskerfið komið úr böndunum. Í stað þess að atvinnulífið þjóni samfélaginu er efnahagslífið farið að drottna yfir samfélaginu.

Við þessar aðstæður ber að slá á hagvöxtinn, með hækkun vaxta og niðurskurð í umsvifum hins opinbera.

Þensluástand á vinnumarkaði er ávísun á hverskyns rugl í efnahagskerfinu, samanber árabilið 2002-2007.

Lærdómurinn af hruninu er að hagvöxturinn þarf að vera í þágu samfélagins en ekki efnahagskerfisins.


mbl.is Spáir spennu á vinnumarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband