Verkföllin og sjálfshatur eftirhrunsins

Vinnan göfgar manninn, segir gamalt máltæki. Samfélag sem býður öllum þegnum sínum starf, líkt og það íslenska, ætti ekki að búa við verkföll og alls ekki jafn víðtæk og raun ber vitni. 

Neðanmálsgrein í riti Sigmund Freud, Undir oki siðmenningar, bls. 26, segir um vinnuna:

Engin lífsstefna tengir einstaklinginn betur raunveruleikanum en vinnan. Því að vinnan gefur manni a.m.k. traustan sess i hluta veruleikans, þ.e. mannlegu samfélagi.

Hvers vegna velja Íslendingar í þúsundavís tilgangsleysið þegar störfin bíða og lífsfyllingin sem þeim fylgir er vannýtt?

Nærtæk skýring á víðtækum verkföllum er sjálfshatrið sem gaus upp eftir hrun. Verkföllin eru ekki fyrsta birtingarmyndin. Við kusum yfir okkur ríkisstjórn skipaða þeim tveim stjórnmálaflokkum sem gera sjálfshatur að lífsstíl - Samfylking og Vinstri grænir.

Vinstristjórnin gerði út á sjálfshatur. Umræðan um ónýta Ísland bar þar hæst, en líka var það ónýta stjórnarskráin og sú brýna nauðsyn að þjóðin hlekkjaði á sig Icesave-skuldirnar. ESB-umsóknin var keyrð áfram af sama sjálfshatrinu: við kunnum ekki neitt, getum ekki neitt og verðum að segja okkur til sveitar hjá Brusselvaldinu.

Í síðustu þingkosningum rofaði til hjá þjóðinni. Hún kaus til meirihluta á alþingi flokka bjartsýni og jákvæðni, Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk.

Sjálfshatrið á enn sína talsmenn, þeir stunda málþóf á alþingi og verkföll til að þjóna sínu eðli. Verkalýðsforystan er að stærstum hluta skipuð fólki úr sjálfshatursflokkunum.

Þjóðin mun ranka við sér og spyrja hvers vegna í ósköpunum hún leiðir sjálfshatrið til öndvegis. Það er svo miklu huggulegra að vera jákvæður og bjartsýnn.

 


mbl.is Fjölþætt áhrif verkfallanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menntun og sæluríki mannauðsstjórnunar

Sérfræðivæðing samfélagsins býr til vandamál fyrir sérfræðinga að leysa. Metnaður sérfræðinga stendur til að raða samfélaginu upp í einingar, flokka þær og setja saman eftir forskrift. Tillaga í þessa átt var birt undir formerkjum mannauðsstjórnar í Morgunblaðinu í dag.

Meistari i mannauðsstjórnun, Jason Már Bergsteinsson, leggur til að Hagstofan ráði fólk til að safna gögnum undir merkingarlausu hugtaki - ofmenntun - enda það forsenda fyrir flokkun og undanfari stýringar á námsvali ungs fólks.

Ofmenntun er merkingarlaust hugtak sökum þess að enginn getur ofmenntað sig, jafnvel þótt hann sé vel greindur, iðinn og stundi nám ævina langa. Menntun er að manna sig og enginn getur verið ,,of mennskur". Nema, auðvitað, í augum sérfræðinga sem vilja setja saman sæluríkið.

Í prentútgáfu Morgunblaðsins er haft eftir Jasoni Má: ,,Fólk skynjar að það er ofmenntað og það vill ekki vera það því það getur ekki verið markmiðið með menntuninni."

Hugtakaruglingurinn er neyðarlegur. Með góðum vilja má gefa sér að Jason Már eigi við starfsþjálfun en ekki menntun. Starfsþjálfun er þrengra hugtak og afmarkaðra en menntun. Niðurstaðan verður engu að síður jafn vond. Sú hugsun svífur yfir vötnum að dýpsta þrá sérhvers einstaklings sé að vera tannhjól í gangverki mannauðsstjórnunar.

Jason Már gagnrýnir samskiptaleysi skóla og atvinnulífs. Hann gefur sér að atvinnulífið viti með fimm til tíu ára fyrirvara, þ.e. þann tíma sem meistara- og doktorsnám tekur, hver þörfin verði fyrir tiltekna sérfræðinga.

Enginn í atvinnulífinu veit þörfina fyrir lögfræðinga, verkfræðinga, viðskiptafræðinga, heimspekinga, sagnfræðinga, lækna, bókmenntafræðinga og aðra sérfræðinga eftir fimm eða tíu ár.

Eina leiðin til að vita þörfina fyrir sérfræðinga er að ákveða fyrirfram hver hún skal vera. Í Sovétríkjunum sálugu voru gerðar fimm ára áætlanir sem stýrðu þjóðfélaginu.

Sæluríki mannauðsstjórnunar rennur upp þegar stóri bróðir ákveður samfélagsþróunina. Afmennskun er fyrsta skrefið í þá átt. Hugtakið ,,ofmenntun" er verkfæri til að hefja afmennskunina. Hagstofan ætti að gera það viðvik fyrir frjálst samfélag að taka ekki upp flokkinn ,,ofmenntun" í hagtölum lýðveldisins.

 


mbl.is Ofmenntun á vinnumarkaði er 19,3%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband