Breivik, Lubitz og sjálfsdýrkun

Myndin sem dregin er upp af þýska flugmanninum Andreas Lubitz, sem fargaði sjálfum sér og 149 farþegum í þotu Germanwings, minnir nokkuð á Anders Behring Breivik sem drap 69 saklaus ungmenni á Útey fyrir fjórum árum.

Breivik var sjálfsdýrkandi, segir í mati sálfræðinga þar sem saman fer félagsleg einangrun, sjálfsupphafning og þráhyggjufull löngun að breyta heiminum. Þýski flugmaðurinn sagði fyrir tveim árum að hann ætlaði sér að vinna frægðarverk sem héldi nafni hans á lofti.

Sjálfsdýrkun helst í hendur við siðblindu enda sjálfsdýrkendur of uppteknir af eigin hugarheimi til að eiga eitthvað aflögu handa öðrum.

Sjálfsdýrkendur búa yfir meiri hæfileikum en meðalmaðurinn til að verða fyrir vonbrigðum. Meðal-Jóninn finnur fyrir vanmati endrum og sinnum en sjálfsdýrkandinn er í stöðugri baráttu við minnimáttarkenndina og leitar á náðir fantasíunnar til að sigrast á þeim djöfli.

Þýski samfélagsrýnirinn Hans Magnus Enzensberger ígrundar hugarfar róttæka einstæðingsins og segir getu sjálfsdýrkenda til vonbrigða vaxa með framþróun samfélagins. Síaukin vonbrigði auka innri spennu sem stundum verður einstaklingnum um megn.

Tækniframfari veita sjálfsdýrkendum fleiri tækifæri til að setja mark sitt á heiminn. Nær allir gera það án þess að valda öðrum fjörtjóni. En inn á milli leynist einn Breivik og stakur Lubitz.


mbl.is Fyrrum kærasta Lubitz tjáir sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Píratar eru nördar - sjálfsímynd þjóðarinnar

Píratar eru nördar á sviði höfundarréttar. Forrík samfélög á Norðurlöndum leyfa sér þann munað að hampa Pírötum á opinberum vettvangi. Og auðvitað verða Íslendingar að trompa það og gera Pírata hluta af þjóðþinginu og að stærsta flokki landsins í skoðanakönnun.

Okkur finnst krúttlegt að gera nördaflokk hátt undir höfði rétt eins og okkur fannst sniðugt að kjósa Jón Gnarr og Besta flokkinn.

Vantraust á starfandi stjórnmálaflokkum og fyrirfólki samfélagins er eðlilegt eftir höggið sem sjálfsímynd þjóðarinnar fékk haustið 2008. Fólk leitaði að öðruvísipólitík til að sýna hefðinni fingurinn. Og alltaf er eitthvað framboð af sérsinnum, þessum sem ýmist er kallaðir sérvitringar, nördar eða spámenn í öðru föðurlandi.

Jarðskjálftakippir þjóðarsálarinnar urðu engu að síður mest á yfirborðinu. Fokk jú yfirlýsingar kjósenda í kosningum og skoðanakönnunum auk smávegis mótmæla á Austurvelli annað veifið eru gárur sem lítt hreyfðu við samfélagsgerðinni.

Kjarni okkar er samur og jafn fyrir og eftir hrun. Okkur þykir vænt um nörda og veitum smælingjum vettvang að láta ljós sitt skína í nafni mannúðar.

En við látum ekki nörda stýra þjóðarskútunni.

 


mbl.is Allir munu þykjast vera Píratar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. mars 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband