Samfylkingarforysta á fjölmiðlaflótta

Flokksmenn í stjórnmálaflokkum kjósa sér forystu til að ræða pólitísk málefni á opnum vettvangi. Forysta Samfylkingar, þau Árni Páll og Sigríður Ingibjörg neituðu að mæta í Kastljós að ræða stjórnmál. Fyrrum formaður, Össur Skarphéðinsson, neitaði sömuleiðis.

Þegar forystufólk stjórnmálaflokks neitar að mæta í fjölmiðlaviðtal er það ekki að vinna vinnuna sína.

Flótti samfylkingarforystunnar frá fjölmiðlum hlýtur að vera upphaf að flótta úr forystusveitinni.


ESB-umsóknin verkfæri í deilum vinstrimanna

Samfylkingin neitaði að mynda ríkisstjórn með Vinstri grænum vorið 2009 nema með þeim skilyrðum að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Formaður Vg, Steingrímur J. Sigfússon, ítrekaði stefnu Vg daginn fyrir kjördag í sjónvarpi þannig að alþjóð mátti vita að Vg væri ekki ESB-flokkur.

Engu að síður þvingaði Samfylkingin það fram í stjórnarsáttmála fyrstu hreinu vinstristjórnarinnar að sótt skyldi um aðild að ESB. Í atkvæðagreiðslunni 16. júlí 2009 sögðust þingmenn Vg vera á móti ESB-aðild en samþykktu engu að síður umsóknina. Samfylkingin rak þar með fleyg inn í Vg sem leiddi til klofnings og þess að fimm þingmenn Vg yfirgáfu flokkinn.

Samfylkingarmenn eiga erfitt að viðurkenna að offors þeirra í ESB-ferlinu kostaði vinnufriðinn í ríkisstjórn Jóhönnu Sig. með því að hálfur þingflokkur Vg var orðinn ,,villikettir." Guðmundur Andri Thorsson tekur undir samfylkingarsíbyljuna um að Jón Bjarnason beri meginábyrgð á því að ESB-umsóknin strandaði. Jón var gerður að grýlu til að draga athyglinni frá því að ESB-umsóknin var taktísk hugsuð sem verkfæri að kljúfa Vinstri græna.

Aðalmaður Samfylkingar í ESB-málum, Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, vissi með löngum fyrirvara að ESB-ferlið var dautt - og sneri sér að því að gera fríverslunarsamning við Kína. Fríverslunarsamningar og ESB-aðild eru gagnkvæmt útilokandi.

ESB-umsóknin var markvisst notuð til að eyðileggja samstarf Samfylkingar og Vg. Vinstrimönnum líður einfaldlega ekki vel nema í innbyrðis deilum. Eins og landsfundur Samfylkingar um helgina undirstrikaði rækilega. 


Nýtt stjórnmálaafl - Austurvallarhreyfingin

Birgitta Jónsdóttir fyrirliði Pírata leggur til að stjórnarandstaðan geri með sér málefnasáttmála til að vinna eftir. Sáttmálinn yrði hornsteinn kosningabandalags stjórnarandstöðunnar.

Stjórnarandstaðan er í reglulegu sambandi við mótmælendur á Austurvelli, sem mótmæla einu í dag og öðru á morgun. Eðlilegast væri að kenna nýtt stjórnmálaafl við blettinn fyrir framan þinghúsið.

Austurvallarhreyfingin gæti auðveldlega sett saman mótmælaskrá. En nokkur vandi yrði á höndum þegar skrifa ætti upp þau mál sem hreyfingin vill að nái fram að ganga.

Orð eru til alls fyrst og þarft verk Birgittu að fitja upp á samstarfi um málefni. Í stjórnmálum þurfum við ekki fleiri kosti heldur skýrari valmöguleika.


mbl.is Ekkert sem er farið af stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Deilur í Samfylkingunni magnast

Framboð gegn sitjandi formanni stjórnmálaflokks er vantraust. Einboðin skýring á vantrausti Sigríðar Ingibjargar og þeirra sem studdu hana til formennsku er að Árni Páll sýnist ekki líklegur til að rífa upp fylgi flokksins.

Samfylkingin fékk háðuglega útreið í síðustu þingkosningum, 12,9% fylgi. Flokkurinn liggur nærri 15% í skoðanakönnunum og eina huggun flokksmanna er að Vg mælist minni.

Sóknarfæri flokksins eru takmörkuð. Píratar soga upp óánægjufylgið og Björt framtíð hirðir kósíatkvæðin frá fólkinu sem hræðist átök og málefnaágreining.

Evrópumál hafa skilgreint flokkinn mörg síðustu ár. Eftir að ESB-umsóknin strandaði á síðasta kjörtímabili eru Evrópumál orðin flokknum fjötur um fót. Það sést best á vandræðum flokksins á landsfundinum. Evrópumál voru ekki dagskrárliður á fundinum sem er álíka og að Vinstri grænir myndu ekki hafa umhverfismál á dagskrá.

Engu að síður er Samfylkingin enn ESB-flokkur. Stuðningurinn við ESB-aðild er falinn í stjórnmálaályktun flokksins. Flokkurinn situr uppi með ESB-málið en viðurkennir að það sé til trafala.

Tveir meginþættir verða að vera fyrir hendi í stjórnmálaflokki til að hann nái árangri. Traust forysta og sæmilega skýr málefnastaða. Eftir landsfund Samfylkingar 2015 er hvorugu til að dreifa.

Þegar flokksmenn átta sig betur á hörmungarstöðu Samfylkingar næstu vikur og mánuði munu deilurnar magnast. Enda styttist í næstu þingkosningar og fer hver að verða síðastur að mæta þar gyrtur í brók.

 

 

 


mbl.is Ekki deilt í fyrsta sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. mars 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband