Vinstriflokkarnir vildu Ísland í gjaldþrotaferli ESB

Samfylking og Vinstri grænir töldu Ísland fjárhagslega og pólitískt gjaldþrota eftir hrun og vildu land og þjóð inn í gjaldþrotaferli er lyki með aðild að Evrópusambandinu.

Sannfæring vinstriflokkanna um ónýta Ísland var meginástæðan fyrir ákefð þeirra að Íslendingar skyldu axla ábyrgðina á skuldum einkabanka, Icesave, og að stjórnarskrá lýðveldisins skyldi fargað fyrir nýtt vinstraplagg stjórnlagaráðs.

Höggið sem Ísland fékk á sig haustið 2008 gerði þjóðina vankaða. Vinstriflokkarnir nýttu sér taugaáfall þjóðarinnar og keyrðu áfram popúlistapólitík um að ESB-aðild væri töfralausn.

Strax eftir kosningasigur vinstriflokkanna vorið 2009 var hafist handa við að knésetja þjóðina með Icesave-skuldunum. Tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, fyrir atbeina forseta, hnekktu Icesave-ánauðinni. Atlagan að stjórnarskránni hélt áfram allt kjörtímabilið og rann endanlega ekki út í sandinn fyrr en á útmánuðum 2014.

Það kom í hlut ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að endurreisa sjálfstraust þjóðarinnar og setja stopp á gjaldþrotaferlið inn í ESB.


mbl.is Ísland lent í greiðsluþroti innan ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefán um mistök Samfylkingar gegn Framsókn

Samfylkingin skaut sig í fótinn með því að velja Framsóknarflokkinn sem höfuðandstæðing sinn. Með árásum á Framsóknarflokkinn, sem að upplagi er hægfara miðjuflokkur, málaði Samfylkingin sig út í horn.

Flokkur í stjórnarandstöðu verður að eiga sem mesta fræðilega möguleika á landsstjórn til að skapa sér trúverðugleika. Brjálæðislegar árásir Samfylkingar á Framsóknarflokkinn útilokuðu að þessir flokkar næðu saman í fyrirsjáanlegri framtíð. Þá var hrunstjórnarmynstrið eitt eftir, Samfylking og Sjálfstæðisflokkur, sem ekki var söluvænlegt - og er raunar ekki enn.

Stefán Ólafsson orðar mistök Samfylkingarinnar á varfærinn hátt

Framsókn varð kröftugur talsmaður velferðarstefnu og bættrar afkomu heimilanna, sem hún vildi setja í forgang. Að þessu leyti hefði Framsókn átt að eiga meiri samleið með vinstri og miðju flokkunum en raun varð á.

Samfylkingin fjandskapaðist sérstaklega í garð Framsóknar og boðaði fyrst og fremst aðild að ESB, sem allsherjarlausn á öllum vanda Íslendinga. Það voru stór mistök og flokkurinn galt afhroð í kosningunum. Framsókn myndaði stjórn með Sjálfstæðisflokki...

Með Árna Pál í brúnni hjá Samfylkingu er ekki líklegt að hatrinu á Framsóknarflokknum linni í bráð. Og með hverri vikunni sem líður næst næstu þingkosningum minnka líkur að Samfylkingin verði stjórntæk.

 


Pírati gerist frjálshyggjumaður, býst við lækkandi fylgi

Þingmaður Pírata um samhengi hlutanna í Viðskiptablaðinu:

Helgi Hrafn Gunnarsson, formaður og þingmaður Pírata, segir að frelsi einstaklingsins og sjálfsákvörðunarréttur hans sé sér mjög hugleikinn. Hann segir þingstörf byggja í veigamiklum atriðum á forgangsröðun, vegna þess að aldrei gefist tími eða tæki til að gera allt sem mann langi til að gera. Hann segir að sín persónulega skoðun sé að það sé ekki réttlætismál að jafna tekjur milli fólks í samfélaginu og að hann hafi alltaf gert ráð fyrir því að fylgi flokksins muni lækka á ný.

 


Samfylkingarmaður: sigur Framsóknarflokksins útskýrður

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins, var eini stjórnmálamaðurinn sem sagði fyrir síðustu kosningar að Ísland væri í færum að ganga að þrotabúum föllnu bankanna til að verja stöðugleika efnahagskerfisins.

Á þessa leið skrifar Stefán Ólafsson prófessor og samverkamaður Jóhönnu Sigurðardóttur til margra ára. Stefán vísar í viðtal við Sigmund Davíð máli sínu til staðfestingar.

Framsóknarflokkurinn vann stórsigur í síðustu kosningum vegna þess að fólk treysti málflutning formannsins og taldi farsælast að veita framsóknarmönnum umboð til að fara með landsstjórnina.

Undir forsæti Framsóknarflokksins rétti Ísland úr kútnum. Skuldir heimilanna voru leiðréttar og höftin eru afnumin. Hér á landi er full atvinna og hagvöxtur; í nágrannaríkjum er atvinnuleysi og samdráttur.

Grein Stefáns leggur drög að útskýringum á sigri Framsóknarflokksins í næstu þingkosningum, vorið 2017.


Bloggfærslur 2. nóvember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband