Spilling, fréttahönnun og fjölræði

Björn Ingi Hrafnsson og Jón Ásgeir Jóhannesson eru ekki trúverðugustu eigendur fjölmiðla; um það er sagan ólygnust. Reynir Traustason og hans slekti var heldur ekki ýkja merkilegt í blaðamennskunni sem oft var meira í ætt við fréttahönnun en frásagnir af atburðum líðandi stundar.

Að þessu sögðu er fjölræði á fjölmiðlamarkaði margfalt betri en fákeppni, eins og E.B. White skrifaði fyrir daga netmiðla í frægri ritsmíð, og benti á að einar öfgar þjóna oft hlutverkinu að afhjúpa aðrar.

Nú ætla hraktir DV-arar að stofna til nýrrar útgáfu. Gangi þeim vel.    


mbl.is „Sá hlær best sem á spilltustu vinina“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hallveig og Helga fá uppreisn æru; norskar en ekki írskar ambáttir

Í Landnámu segir frá þeim Hallveigu Fróðadóttur, er Ingólfur átti, og Helgu systur hans sem fóstbróðirinn Hjörleifur fékk til eiginkonu eftir orustur við syni Atla jarls.

Um hríð féll sá blettur á minningu Hallveigar og Helgu að þær væru ekki norrænar frjálsar heldur írskar ambáttir, teknar herfangi af norskum víkingum í Skotlandi, Írlandi og eyjunum þar fyrir norðan.

Fornleifur, Vilhjálmur Örn, setti umræðuna í rannsóknapólitískt samhengi. Okkur sem aðhyllumst sígildu íslensku söguskoðunina er létt.


mbl.is Norrænar konur sigldu líka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarnorkusprengja á Þýskaland

Sókn Þjóðverja gegn innrásarliði bandamanna veturinn 1944 til 1945 í gegnum Ardennafjöll var örvæntingarfull tilraun Hitlers að snúa stríðsgæfunni sér í hag. Innrás bandamanna sumarið 1944 á meginlandið skyldi hrundið og þeir reknir til sjávar, líkt og Þjóðverjum tókst í leifturstríðinu í maí 1940 er Bretar voru umkringdir í Dunkirk.

Sagnfræðingurinn Karl-Heinz Frieser er sérfræðingur í þýskri stríðssögu. Hann segir í viðtali að Hitler sjálfur skipulagði Ardennasóknina og byggði þar á Schliffenáætluninni frá fyrra stríði. Fyrst átti að reka heri bandamanna úr Frakklandi og Belgíu en síðan að flytja stærsta hluta þýska hersins á austurvígstöðvarnar og stöðva sókn Rauða hersins í Póllandi.

Ardennasókn Þjóðverja byrjaði vel en rann út í sandinn. Þýsku skriðdrekarnir, sem áttu að bera meginþunga sóknarinnar, voru með bensín til 60 km aksturs en leiðin til Antwerpen í Belgiu var 200 km en þangað var stefnt til að kljúfa her bandamanna. Þýsku skriðdrekunum var ætlað eldsneyti úr birgðum bandamanna. ,,Blitzkrieg ohne Benzin" stöðvaðist um jólin 1944.

En ef, og þetta er stórt ef, Þjóðverjum hefði tekist að hrekja innrásarher bandamanna til sjávar veturinn 1945 hver hefðu viðbrögð bandamanna orðið? Karl-Heinz Frieser gefur þetta svar:

Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að svara þeirri spurningu: fyrstu kjarnorkusprengjunni hefði þá ekki verið varpað á Hiroshima heldur þýska borg.

Saga í viðtengingarhætti er áhugaverð pæling.  


30 - 70 pólitíkin

Sjálfstæðisflokkurinn er að verða hæglætisíhald og gæti orðið kjölfestan í íslenski pólitík með 30 prósent fylgi. Þau 70 prósent sem eftir eru skipta sköpum hvort hér ráða ferðinni hófsöm borgaraleg öfl eða sambræðsla einsmálsflokka á vinstri kantinum.

Framsóknarflokkurinn er í lykilstöðu undanfarið sem umræðuvaki stjórnmálanna. Flokkurinn er með burði til að tvöfalda skoðanakönnunarfylgið þegar kemur að kosningum, einmitt vegna þess að framsóknarforystan gefur tóninn í umræðunni.

Samandregið: hófsöm hægriöfl eru í þokkalegum færum að halda meirihluta sínum á alþingi, en vinstribræðingurinn er engu að síður hættulegur andstæðingur.


mbl.is 36,6% styðja ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband