Læk-umræðan og lýðræðið

Bloggið og samfélagsmiðlar eins og feisbúkk ættu að öðru jöfnu auka umræðu og þátttöku almennings í lýðræðissamfélaginu. Enginn þröskuldur er fyrir þátttöku og því ætti þúsund blóm að blómstra, eins og formaðurinn sagði á tímum menningarbyltingarinnar.

En það er ekki allt sem sýnist frjálsræði netheima. Síðuhaldari tók nýverið þátt í umræðu um eitthvert málefni á spjallþræði á feisbúkk. Eftir nokkur skoðanaskipti kom eftirfarandi athugasemd (skrifuð eftir minni): Páll fær fæst lækin af þeim sem taka þátt í umræðunni.

Þessi aðferð, að ,,læka" einstakar athugasemdir á spjallþráðum, er einhvers konar atkvæðagreiðsla í rauntíma. Lesendur umbuna athugasemdum sem þeim fellur í geð með ,,læki." Atkvæðagreiðsla á meðan umræðunni stendur er  ekki annað en yfirlýsing um stuðning við málsaðila en ekki málefni þar sem umræðunni er ekki lokið.

Við þessar kringumstæður verður umræðan morfís-keppni.


Evrópa virkar ekki

Evrópusambandið býður 28 aðildarríkjum sínum upp á tæp 12 prósent atvinnuleysi að meðaltali, engan hagvöxt og verðhjöðnun sem mun knésetja skuldugustu þjóðir sambandsins, Ítalíu fyrst.

Wolfgang Münchau efnahagsskríbent Spiegel segir aðildarríki ESB ekki búa við svigrúm til að gagnsetja efnahagskerfi sín. Aðeins Evrópusambandið sjálft í samvinnu við seðlabanka evrunnar getur ráðist í það stórvirki að hleypa lífi í efnahagsstarfssemi álfunnar. Framkvæmdastjórn ESB er á hinn bóginn ekki með umboð til nauðsynlegra ráðstafna og því gerist ekkert.

Í Telegraph óttast Jeremy Warner að tröllauknar skuldir kæfi eftirspurn sem heldur aftur af verðbólgu og vöxtum. Fyrr heldur en seinna rennur upp fyrir lánadrottnum að þeir fá ekki peningana sína tilbaka og þá verður hvellur.

Bandaríkin eru komin fyrir horn með öflugan hagvöxt og æ sterkari dollar. Þjóðverjar horfa öfundaraugum á Bandaríkin stökkva fram úr Evrópusambandinu, sem ætlaði sér að verða heimsveldi viðskipta og fjármála, en situr kirfilega fast í heimagerðri kreppu ónýts gjaldmiðlasamstarfs. 


mbl.is Stöðnun ríkjandi á evrusvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrimenn og kaupfélagsstjórinn sem stjórnar Íslandi

Einu sinni formæltu vinstrimenn Davíð Oddssyni fyrir að stjórna Íslandi. Vinstrimenn sáu Davíð á bakvið allt sem þeim var ekki að skapi. Í skjóli þráhyggjunnar um Davíð urðu ýmsir lukkuriddarar í viðskiptum að sérlegum skjólstæðingum vinstrimanna, - með það eitt sér til ágætis að Davíð taldi þá ekki merkilega pappíra.

Kaupfélagsstjórinn í Skagafirði, Þórólfur Gíslason, er kominn í hlutverk Davíðs Oddssonar. Samkvæmt vinstrimönnum stjórnar Þórólfur viðskipta- og fjármálalífinu á bakvið tjöldin. Helsti samfélagsrýnir vinstrimanna,  Guðmundur Andri Thorsson, segir Þórólf sitja við hægri hönd guðs og dæma þar einn í gjaldþrot en annan til auðlegðar.

Auðvitað renna sem fyrr lukkuriddarar á slóð vinstrimanna og segja Þórólf ábyrgan fyrir því að þeir hafi ekki ,,meikað" það í viðskiptum. Vinstrimenn lofsynja lukkuriddarana enda sjá þeir aldrei rangan hest án þess að veðja á 'ann.


mbl.is Bankalegar forsendur réðu för
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband