Gjaldmiðill og ríki

Skotland með enskt pund verður ekki fyllilega sjálfstætt. Englandsbanki mun stjórna peningamálastefnu pundsins út frá enskum hagsmunum en ekki skoskum. Sjálfstæðissinnar í Skotlandi telja ekki heppilegt að hverfa frá breska pundinu um leið og þeir lýsa yfir sjálfstæði - ef til þess kemur.

Skotar líta ekki á evruna sem valkost enda sá gjaldmiðill þekktur fyrir að leggja efnahagskerfi jaðarþjóða í rúst. Björn Bjarnason segir frá umræðu um að Skotar taki upp norska krónu enda margt líkt með hagkerfum þessara þjóða.

Á miðöldum réðu norskir konungar nyrsta hluta Skotlands og eyjunum þar undan: Suðureyjum, Hjaltlandseyjum og Orkneyjum. Ætli til verði fylkisflokkur í Skotlandi til að ganga inn í Noreg?


mbl.is Skotar haldi sig ekki við pundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hryðjuverk til heimabrúks virka ekki á netöld

Íslamistar í Sýrlandi og Írak nota villimannslegar aðfarir til að ýkja styrki sinn andspænis tvístruðum mótherjum. Hryðjuverk í þágu landvinninga og kúgunar er viðtekin venja í sögunni fremur en afbrigði.

Heimskringla segir frá Magnúsi berfætta sem beygði íbúa skosku eyjanna undir sig með hryðjuverkum. Vilhjálmur sigurvegari slátraði fólki og búfé í Norður-Englandi til að fylgja eftir sigrinum á Engilsöxum við Hastings. Hryðjuverk var herstjórnarlist krossfaranna, Djengis Kahn, spænsku landvinningamannanna og svo framvegis. Jafnvel í okkar friðsömu sögu koma fyrir hryðjuverk; í höfðingjaátökum Sturlungaaldar voru menn augnstungnir, aflimaðir og geltir.

Hryðjuverk til heimabrúks ná oft tilætluðum árangri. Norsku herkonungarnir frá Ólafi Tryggvasyni að telja brutu undir sig smákóngadæmin og stofnuðu eitt ríki; Normannar urðu herrar Englands og spænsku landvinningamennirnir réðu heilli heimsálfu.

Hryðjuverk brjóta á bak andstöðu fórnarlömbin eru hjálparlaus. Fjölmiðlar breyttu valdahlutföllunum með því að fórnarlömbin fengu rödd og ásýnd. Eftir því sem leið á 20. öldina varð erfiðara að stunda hryðjuverk til heimabrúks. Bandaríkjamenn töpuðu Víetnam-stríðinu vegna þess að fjölmiðlar afhjúpuðu grimmdina og tilgangsleysið: ,,við verðum að eyða þorpinu til að bjarga því."

Íslamistar, sem ætla að búa til kalífadæmi í Sýrlandi og Írak, fremja hryðjuverk til að lama mótstöðuna. En þegar fjölmiðlar kynna alþjóð hryðjuverkin kallar samúðin með fórnarlömbunum á hernaðaraðgerðir gegn íslamistum. Fjölmiðlar segja íslamista nýja vídd villimennskunnar sem vestrænum þjóðum ber skylda til að herja á.

Fréttir um níðingsverk íslamista á kristnum munu stórauka þrýstinginn á vestræn stórveldi að grípa í taumana. Illu heilli fyrir alla viðkomandi munu sprengjuárásir Breta og Bandaríkjamanna ekki bjarga neinu. Aðeins íbúar Sýrlands, Íraks og annarra ríkja á ófriðarsvæðum fyrir botni Miðjarðarhafs geta leyst úr þeim vanda sem þar er við að etja.    

 


mbl.is Bretar íhuga þátttöku í árásum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband