Blaðamennska og valdapólitík

Frétt mbl.is sem er upphafið að svokölluðu lekamáli er unnin á forsendum blaðamennsku, þar sem stuðst er við ýmsar heimildir s.s. samtakanna No Borders og minnisblaði ættuðu úr innanríkisráðuneytinu. Fréttin er málefnaleg og varpar ljósi á stöðu tiltekins hælisleitanda, sem vegna mótmæla No Borders var orðinn að fjölmiðlamáli.

Morgunblaðið stundar blaðamennsku, eins og hún er almennt skilin; að segja frá tíðindum nær og fjær og upplýsa almenning. Réttarkerfið stendur vörð um blaðamennsku, það kom fram í dómi Hæstaréttar þegar lögreglan krafðist þess að fréttastjóri mbl.is gæfi upp höfund og heimild fréttarinnar.

DV stundar ekki blaðamennsku í lekamálinu. Blaðamaður DV, Jón Bjarki Magnússon, kom fram á baráttufundi No Borders samtakanna, eins og Björn Bjarnason benti á. Þar með lýsir blaðamaður opinberlega yfir samstöðu með málaðila í lekamálinu. Jón Bjarki er einn þriggja aðalhöfunda síðustu DV-roku í lekamálinu, sem má kalla Stefánsþátt Eiríkssonar og byggðist á þeim uppspuna að Stefán hefði hætt sem lögreglustjóri vegna þrýstings frá Hönnu Birnu.

Björn hafði áður bent á tengsl DV við samtökin No Borders og fengið hótun frá Reyni Traustasyni ritstjóra um málssókn vegna þess. Að hóta málssókn er ekki blaðamennska heldur hrá valdapólitík.

DV stundar valdapólitík í lekamálinu og hefur sett sér það markmið að koma innanríkisráðherra fyrir pólitískt kattarnef. Í þeirri valdapólitík finnur DV sér bandamenn, t.d. ríkissaksóknara og RÚV sem jafnvel gengur svo langt að birta fésbókarfærslur Reynis ritstjóra eins og um heilagan sannleik væri að ræða.

Takist DV með hjálp bandamanna að flæma ráðherra úr ríkisstjórn Íslands fær DV-útgáfan stóraukið vægi í samfélagsumræðunni. 

,,En við höf­um svo sem pönk­ast á hon­um út í það óend­an­lega," sagði Reynir í frægu samtali við einmitt Jón Bjarka fyrir sex árum þegar þeim hafði sinnast í tilefni af frétt Jóns Bjarka sem Reynir sló af vegna utanaðkomandi þrýstings. Í sama samtali talar Reynir um að ,,taka menn niður" þegar hann lýsir starfsháttum DV.

Núna er DV að pönkast í Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og vill taka hana niður. Takist DV ætlunarverk sitt verður verra að búa á Íslandi en áður vegna þess að þeir menn eru komnir með samfélagsvald sem ekki kunna að fara með það.


mbl.is „Vantraust á ráðuneytið moldviðri“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ari fróði og elsta auglýsingabrella Íslandssögunnar

Fróðlegt verður að heyra rök Páls Bergþórssonar fyrir því að Ari fróði Þorgilsson sé höfundur Eiríks sögu rauða, sem geymir elstu auglýsingabrellu Íslandssögunnar.

Eiríkur rauði Þorvaldsson fór úr Noregi fyrir víga sakir, líkt og sumir aðrir landnámsmenn t.d. Ingólfur og Hjörleifur. Manndráp fylgdu Eiríki til Íslands og var gerður brottrækur af landi á Þórsnesþingi á Snæfellsnesi. Hann leitaði sér búsetu í landi vestan Íslands og er nafnahöfundur þess. Í Eiríks sögu rauða segir

Það sumar fór Eiríkur að byggja landið það er hann hafði fundið og hann kallaði Grænland því að hann kvað menn það mjög mundu fýsa þangað ef landið héti vel.

Snjöll nafngift getur skipt sköpum. 


mbl.is Páll Bergþórsson í fornleifaleiðangur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

100 ára sjálfsmorð Evrópu

3. ágúst 1914 kl. 19:00 tókust þeir í hendur Wilhelm von Schoens sendiherra Þjóðverja  og Rene Viviani forsætisráðherra Frakklands eftir að sá fyrrnefndi afhenti stríðsyfirlýsingu Þjóðverja. Þýska útgáfan Die Welt minnist atburðarins með fyrirsögninni Á þessum degi framdi Evrópa sjálfsmorð.

Víða í Evrópu var fagnað. Stríð var langþráð tilbreyting frá leiðinlegum hversdagsleika. Almannarómur var að stríðið stæði ekki nema i nokkrar vikur, líkt og síðasta stríð Frakka og Þjóðverja 1870/71. Stefan Zweig segir frá þýsk-austurrískri stríðshrifnæmi þessa sumardaga fyrir hundrað árum í bókinni Veröld sem var.

Zweig var austurrískur gyðingur og gerði það gott sem rithöfundur á árunum milli stríða. Ef einhver einn einstaklingur persónugerir sjálfsmorð Evrópu þá er það Stefan Zweig. Hann skrifaði um þýsk, frönsk og rússnesk skáld; Maríu Stúart drottningu Skota og lögreglustjóra Napoleóns. Viðfangsefnin sótti hann út um alla álfuna. Fyrst og fremst var hann þekktur fyrir smásögur sínar þar sem innri angist ef ekki sálfræðistríð keyrði áfram frásögnina.

Sjálfsmorð Evrópu dróst á langinn. Bandaríkin komu Evrópu til bjargar 1917 og ári seinna var saminn friður kenndur við Versali. Friðurinn stóð ekki lengi. Samlandi Zweig, maður að nafni Adolf Hitler, náði völdum í Þýskalandi undir þeim formerkjum að endurreisn með stríði væri hin rétta þýska aðferð.

Zweig flúði Hitler, fyrst til Bretlands, þá Bandaríkjanna og loks Brasilíu. Hann var einn mest lesni höfundur samtímans og þokkalega fjáður - ólíkt þorra flóttamanna. Zweig eignaðist nýja konu þrjátíu árum yngri og hélt skrifum áfram, lauk m.a. við Veröld sem var og Manntafl.

Sjálfsmorð Evrópu hófst með fyrri heimsstyrjöld og hélt áfram í þeirri seinni. Stefan Zweig fékk nóg af veröldinni eins og hún var orðin. Hann þreifst ekki í nýjum heimkynnum og örvænti um þau gömlu. Ásamt konu sinni, Charlotte Elisabeth Altmann, framdi Zweig sjálfsvíg þremur árum fyrir lok seinna stríðs.

 

 

 

 


Bloggfærslur 3. ágúst 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband