Vinnandi fólk á framfæri fatlaðra

Formaður Öryrkjabandalags Íslands,Ellen Calmon, sagði í viðtali (6:52) að um 49 þúsund Íslendingar væru fatlaðir. Í ljósi þess hve hátt hlutfall þjóðarinnar er fatlaður, og margir uppgötva ekki fötlun sína fyrr en á fullorðinsárum, þá vaknar spurningin hvort vinnandi fólk ætti ekki að komast í framfærslu hjá fötluðum.

Ef vinnandi fólk er óánægt yfir meðferðinni sem það fær hjá fötluðum er hægt að gera sjónvarpsauglýsingu, fyrir peninga úr sjóðum fatlaðra, því þeir eru jú ótæmandi, þar sem gert er grín að talsmönnum fatlaðra og spurt hvort ríkisstjórn fatlaðra ætli nú ekki efna loforðin um áhyggjulausa ævidaga vinnandi fólks.

Það veit guð að vinnandi fólk á skilið smá breik frá fötluðum.


Knoll &Tott og byltingin að ofan

Allt frá dögum Forn-Grikkja er bylting undanfari framþróunar lýðræðis. Ameríska byltingin 1776 og sú franska þrettán árum síðar skiluðu vestrænum þjóðum stjórnarskrám sem enn í dag eru undirstaða stjórnskipunar lýðræðisþjóða.

Eftir hrunið á Íslandi vildu sumir meina að gerð hafi verið bylting hér á landi, samanber ,,búsáhaldabyltingin." Fólk sem þannig talar skilur ekki að bylting felur í sér að stjórnskipun sé umbylt; þeirri gömlu sé hent út og ný komi í staðinn, sbr. lénsskipulagið sem féll frönsku byltingunni og stjórnskipun keisaraveldis Rússlands fauk með októberbyltingunni.

Á Íslandi eftir hrun var ekki bylting heldur þingræðislegt valdarán. Annar stjórnarflokkurinn, Samfylking, gerði bandalag við stjórnarandstöðuflokk, Vg, um að breyta valdahlutföllum í samfélaginu í skjóli upplausnarástandsins í kjölfar hrunsins. Móðurflokkur íslenskra stjórnmála, Sjálfstæðisflokkur, skyldi fá varanlegt sæti hornkerlingar. 

Valdaránið fékk lýðræðislegt lögmæti með kosningunum vorið 2009 þegar Samfylking og Vg mynduðu ríkisstjórn. Í beinu framhaldi stóð til að gera byltingu að ofan með því umbylta stjórnskipun lýðveldisins.

Stjórnlagaráðið, sem skipað var upp úr ólögmætu stjórnlagaþingi, var byltingarverkfærið. Tveir vígamóðir byltingarliðar, Þráinn Bertelson, fyrrum þingmaður, og Þorvaldur Gylfason, stjórnlagaráðsmaður, ræða um byltinguna sem ekki varð í nýrri útgáfu TMM, tímarits vinstrimanna alla lýðveldissöguna.

Í úrdrætti samtalsins í Kvennablaðinu er fyrirsögnin Svik á svik ofan. Svikin sem þeim félögum svíður sárast er samherjanna, sem í orði kveðnu studdu byltinguna, en brugðust þegar á reyndi. Lykilsetning samtalsins er eftirfarandi:

Það er lítill vandi fyrir stjórnmálamann sem heitið hefur stuðningi sínum við að koma stjórnarskrá gegnum þingið en síðan ekki staðið við orð sín að segja: Þetta var í sjálfu sér ágætt en þessi drög urðu aldrei eins og ÉG vildi hafa þau...

Fyrsta persóna í hástöfum lýsir hversu sjálfhverft vinstraliðið var eftir valdatökuna vorið 2009. Það bjó ekki að neinni pælingu um hvað ætti að gera við nýfengin völd. Í huga vinstrimanna átti byltingin að ofan að snúast um að halda völdum sem Samfylking og Vg fengu í þingræðislega valdaráninu veturinn 2009.

Engin bylting í veraldarsögunni er framin til þess eins að halda illa fengnum völdum. Í byltingum er ávallt um stórar hugsjónir að tefla. Nema, altso, í byltingartilraun ríkisstjórnar vinstrimanna á Íslandi kjörtímabilið 2009 til 2013. Enda sló ríkisstjórn Jóhönnu Sig. Evrópumet í fylgishruni vorið 2013, - þegar almenningur fékk loksins, loksins að segja álit sitt á byltingartilrauninni.

     


Útrásin sem gjörningur

Í annálum útrásarinnar hlýtur Milestone að skipa sérstakan sess. Þegar engir pappírar voru á bakvið viðskipti upp á 2,7 milljarða króna þá töluðu æðstu stjórnendur um að ,,búa til eitthvað fallegt" fyrir endurskoðunarfyrirtækið KPMG.

Þegar æskuvinur Wernersbræðra, helstu eigenda Milestone, kom í heimsókn var ákveðið að hann keypti félag af þeim sem átti ekkert nema skuldir. Fyrir dómi segir æskuvinurinn þetta um viðskiptin

„Mig minn­ir að það hafi verið þúsund krón­ur. Þetta var bara svona gjörn­ing­ur.“

Útrásin var einmitt þetta; gjörningur þar sem skjöl voru búin til án nokkurra tengsla við veruleikann og fyrirtæki seld og keypt mest út í bláinn.

Samstarfsmaður þeirra Wernersbræðra, Þór Sigfússon, stýrði Sjóvá í umboði bræðranna. Hann skrifaði og gaf út bók um stjórnun um þann tíma sem hann var forstjóri tryggingafyrirtækisins. Bókin heitir því skáldlega nafni Betrun. Í kynningu frá útgefanda segir

Stjórnendur fyrirtækja gera sér oft enga grein fyrir minni háttar misfellum í starfi sínu og samstarfsfólkið lætur kannski hjá líða að benda þeim á þær. En minni háttar mistök geta orðið meiri háttar vandamál séu þau tíð og síendurtekin; þau geta gegnsýrt fyrirtækin og lamað starfsemina.

Þá er það milljón króna spurningin: er ,,fallegur gjörningur" minni háttar misfella eða glæpsamleg list kexruglaðra manna?

 


mbl.is „Getur þú ekki búið til eitthvað fallegt?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. nóvember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband