Þegar Danmörk reyndi að selja Ísland

Á dagskrá RÚV í kvöld er fyrsti þáttur í danskri sjónvarpsröð sem heitir 1864. Í danskri sögu er þetta stórt ártal enda stendur það fyrir löðrunginn sem Þjóðverjar veittu Dönum til að minna þá á að Danmörk er evrópskt smáríki.

Þjóðverjar voru á þessum tíma að undirbúa stofnun Þýskalands, spurningin var aðeins hvort það yrði undir forsæti Prússa eða Austurríkismanna. Þjóðverjar vildu fá í þýska ríkið hertogadæmi í suðurhluta Danmerkur, Slésvík og Holstein. Danir vildu ekki hreyfa við suðurlandamærunum.

Stríðið 1864 stóð í fáeina mánuði og lauk með niðurlægjandi ósigri Dana. I friðarsamningum í Vín var tekist á um hvort Danir fengju að halda nyrsta hluta Slésvík, sem nær alfarið var byggður dönskumælandi fólki. Danir reyndu að bjóða Þjóðverjum Ísland í staðinn fyrir Norður-Slésvík en án árangurs. Þjóðverjar voru ekki komnir í heimsyfirráðaham og fúlsuðu við eyjunni í norðri.

Danir mátu samlanda sína í Slésvík meira en Frónbúa. Það var aftur staðfest sumarið 1918 þegar ljóst var að Þjóðverjar myndu tapa fyrri heimsstyrjöld. Þá samþykktu Danir fullveldi Íslands, sem þeir höfðu neitað okkur um í áratugi, til að standa betur að vígi í friðarsamningunum í Versölum að endurheimta Slésvíkur-Dani. Það tókst og landamærunum frá 1864 var breytt.

Lærdómurinn fyrir okkur Íslendinga af þessari sögu er að án fullveldis erum við skiptimynt í alþjóðlegum samskiptum.

 


Vangá ráðherra menntamála

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra fékk ,,línuna" í málefnum framhaldsskóla frá Samtökum atvinnulífsins, sem af einhverjum undarlegum ástæðum er hlustað á í ráðuneytinu. Línan var að stytta nám til stúdentsprófs um eitt ár og girða fyrir að þeir sem eru eldri en 25 ára fái inni í framhaldsskólum.

Ráðherrann böðlast áfram með línuna frá samtökum hrunfólksins og gerir ekkert með fagfélög kennara né heldur hlustar hann á skólastjórnendur.

Sjálfsagt nær ráðherra menntamála einhverjum skammtímasparnaði. En til lengri tíma er kemur það niður á lífsgæðum þjóðarinnar að spara í menntamálum.


mbl.is Varhugavert að miða við hin Norðurlöndin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ójafnrétti eykst með hjaðnandi kreppu

Eftir kreppuna í kjölfar hruns Lehmans-banka 2008 voru árangursríkustu viðbrögðin að lækka vexti niður í núll og bjóða atvinnulífinu ódýra peninga. Þess leið er heitir ,,quantitative easing" og var keyrð áfram af bandaríska seðlabankanum.

Aðferðin heppnaðist að því leyti að Bandaríkin sýndu betri hagvöxt og fleiri fengu störf en annars. Ókosturinn við peningaflæðið var að það stórum jók efnahagslegan ójöfnuð í Bandaríkjunum. Efnaðasti hluti Bandaríkjamanna nýtti sér vitanlega ódýru peningana til að auka enn auð sinn.

Nýr seðlabankastjóri Janet Yellen segist hafa verulegar áhyggjur af efnahagslegum ójöfnuði. Af orðum Yellen má draga þá ályktun að hún muni ekki styðja nýja umferð af ódýrum peningum til að keyra upp hagvöxt.


mbl.is Mesta hækkun í rúmt ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. október 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband