Ísland: veikari ESB, sterkari Bandaríkin

Í stórveldapólitík gildir lögmálið að eins dauði er annars brauð. Evrópusambandið, eftir Brexit, evru-vandræði og flóttamannafár, er veikari. Bandaríkin eru eftir því hlutfallslega sterkari.

Eftir 2006, þegar bandaríski herinn yfirgaf Miðnesheiði, jókst aðdráttarafl Evrópusambandsins. ESB-umsóknin frá 16. júlí 2009 markaði háflóð samskipta Íslands og ESB. Eftir það fjaraði undan.

Eðlilegt er að Ísland og Bandaríkin treysti sambandið í kjölfar veikari ESB. Auðvitað á forsendum fullveldis og gagnkvæmra hagsmuna.


mbl.is Valgerður segist treysta Lilju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskir vinstrimenn: þróunaraðstoð til Evrópu

Íslenskir vinstrimenn vilja núna bæta Evrópu á lista yfir þróunarríki sem veita þurfi aðstoð vegna ,,óásættanlegra aðstæðna" í álfunni. Fyrir skemmstu vildu sömu vinstrimenn að Ísland yrði hluti af ESB, bandalagi evrópskra meginlandsríkja.

Vinstrimenn á Íslandi virðast ekki vita að Evrópusambandið bjó til ,,óásættanlegar aðstæður" með því að bjóða velkomna pólitíska og efnahagslega flóttamenn frá miðausturlöndum og Norður-Afríku.

Eigum við ekki að leyfa Evrópusambandinu að ráða fram úr heimatilbúnum vanda? Þróunaraðstoð ætti fremur að veita þeim sem virkilega þurfa á henni að halda.


mbl.is Taki betur á móti hælisleitendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB-þráhyggja Baldurs

Yfirvegaðir og þokkalega greindir álitsgjafar eins og Martin Feldstein segja ofmetnað Evrópusambandsins hafa knúið Breta til útgöngu. Breskir fjölmiðlar ígrunda næstu skref Bretlands eftir Brexit. Róttækir breskir álitsgjafar setja aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, EES, fram sem baráttumál um leið og þeir fagna hruni nýfrjálshyggju.

En hér heima sitja menn eins og prófessor Baldur Þórhallsson í fílabeinsturni og klappa þann stein að Bretar séu ekkert á leiðinni út úr Evrópusambandinu.

Brexit er pólitísk staðreynd. Bretland er á leið úr Evrópusambandinu. Umræðan á meginlandi Evrópu gengur út á að bregðast við póltískum staðreyndum. Á Íslandi keppast sumir við að stinga höfðinu í sandinn og afneita staðreyndum.


mbl.is Ekki víst að Bretar fari úr ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kirkja stundar lögleysu - lokum 'enni

Kirkjan er ekki starfrækt fyrir almannafé til að stunda lögleysu; bjóða valdstjórninni birginn og grafa undan réttarríkinu.

Ríkið á vitanlega ekki að fjármagna undirróðursöfl sem í nafni trúarþvættings frá miðöldum um kirkjugrið efnir til óspekta á almannafæri.

Við búum í veraldlegu samfélagi. Trúarstofnanir sem ekki hlýða lögum eiga ekkert erindi við samfélagið.


mbl.is Ekki undir lögaldri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fótbolti og pólitík

Félagarnir Egill Helgason og Gunnar Smári Egilsson kynntu fyrir tveim árum þá pólitísku hugmynd að Ísland væri betur komið sem fylki í Noregi. Tími fullvalda Íslands væri liðinn. Norski draumurinn tók við af ESB-umsókninni sem sömu kreðsur aðhylltust. Mottóið: allt er betra en Ísland.

Forsíða útbreiddasta dagblaðs í Noregi, VG, segir á forsíðuuppslætti í dag að Norðmenn sjái eftir að hafa látið Ísland af hendi til Dana árið 1397 við stofnun Kalmarsambandsins: i dag er vi alle islendinger.

Í fótbolta og pólitík er eftirspurn eftir sigurvegurum. En forsenda sigurs er að vera trúr sjálfum sér.


mbl.is Ísland ekki jafn vinsælt frá eldgosinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brexit, forsetakjör og lamandi Pírata-lýðræði

Forsetakjörið á Íslandi er líklegt að vera léttvægt í pólitískri umræðu í samanburði við Brexit. Systurflokkur Samfylkingar í Bretlandi, Verkamannaflokkurinn, logar í innanflokksdeilum eftir Brexit, sem flokkurinn ber þó enga ábygrð á.

Beint lýðræði, í anda Pírata, fær einnig á kjaftinn í umræðunni. Margir taka undir Kenneth Rogoff sem segir þjóðaratkvæðið í Bretlandi sýni ógöngur beina lýðræðisins.

Lýðræðisumræðan eftir Brexit byggir á tveim ólíkum forsendum. Í einn stað að samfélög verði að fá tækifæri að segja álit sitt á stærri málum, til dæmis aðild að ESB. Í annan stað er tekinn vari á að einfaldur meirihluti sé nægur til að kollvarpa ríkjandi skipulagi - og ESB-aðild Breta var hluti af ríkjandi skipulagi.

Sett í samhengi: forsetakjörið á Íslandi er ekki vefengt þótt kjörinn forseti fái langt undir 50 prósent fylgi. Brexit-kosningin í Bretlandi er harðlega gagnrýnd þótt ótvíræður meirihluti hafi hafnað ESB-aðild.

Píratar munu ekki eiga auðvelt með að selja þjóðinni þá hugmynd að beint lýðræði, þar sem meirihlutinn ræður, sé raunhæf aðferð til að leiða mál til lykta í lýðræðisríki. Hugmyndir um að smáhópar í samfélaginu, 15 til 20 prósent hópar, geti knúið fram þjóðaratkvæði um áhugamál sín eru algerlega út í bláinn eftir Brexit.

Stjórnarskrá lýðveldisins sýndi í forsetakjörinu að hún virkar vel og engin ástæða til að hrófla við henni. En Píratar vilja einmitt stokka upp stjórnarskrána. Eftir Brexit eru Píratar í bullandi vörn með þau fáu málefni sem þeir tjalda með.


mbl.is Corbyn að missa tökin á flokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB berst fyrir lífi sínu: minna lýðræði, meiri miðstýring

Fjárfestirinn George Soros segir óhjákvæmilegt að Evrópusambandið liðist í sundur eftir Brexit. Guardian tekur saman háværar kröfur um þjóðaratkvæði í ESB-ríkjum eins og Hollandi, Danmörku, Svíþjóð, Frakklandi og Þýskalandi þar sem aðild að sambandinu væri í húfi.

Gagnsókn Evrópusambandsins felst í meiri og víðtækari samruna. Forseti framkvæmdastjórnar ESB, Jean-Claude Juncker, er sagður vilja nota Brexit-kreppuna til að þétta raðirnar með kröfu um að allar ESB-þjóðir taki upp evru og samþykki fullveldisframsal sem tryggi framtíð gjaldmiðilsins.

Aðeins 19 af 27 ríkjum Evrópusambandsins nota evru. Ef reynt verður að knýja á um aukinn samruna á forsendum evru-samstarfsins eykst andstaðan við ESB-aðild í þeim ríkjum sem búa við sjálfstæðan gjaldmiðil. Þá er heldur ekki stuðningur við aukinn samruna í þeim ríkjum sem þegar nota sameiginlega gjaldmiðil, t.d. Frakklandi, Hollandi og Austurríki.

Frakkar og Þjóðverjar eru sagðir tilbúnir með áætlun um að blása lífi í dauðvona Evrópusamband. Þá áætlun verður að laga að pólitískum veruleika, ef hún á að eiga minnstu von um að heppnast. Pólitíski veruleikinn er sá að elsta lýðræðisríki ESB hafnaði sambandinu. Ef svarið frá Brussel verður minna lýðræði, meiri miðstýring er áætlunin steindauð.


mbl.is Liggur ekki á að ganga úr ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Páll - Brexit er grafskrift Samfylkingar

Samfylkingin tapar mest íslenskra stjórnmálaflokka á Brexit. Frá innanflokksatkvæðagreiðslu 2002, sem sannanlega var furðuflipp, til dagsins í dag er Samfylking fyrirvaralaus ESB-flokkur.

Yfirvegaðir hægrimenn í Bretlandi útskýra Brexit með vísun í langa hefð friðsamlegra mótmæla Englendinga gegn illþolandi yfirvaldi. Róttækir vinstrimenn segja Brexit andóf almennings gegn yfirstéttarelítunni. Fráfarandi formaður Samfylkingar býður upp á analísuna að Brexit sé ,,furðuflipp."

Árni Páll er í sporum sanntrúaðra kommúnista eftir innrás Sovétríkjanna í Tékkóslóvakíu 1968. Innrásin afhjópaði vangetu kommúnista að stjórna með öðru en ofbeldi; Brexit sýnir að ESB þolir ekki lýðræði.


mbl.is Breska þjóðaratkvæðið „furðuflipp“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærstu tíðindin: enginn forsetaflokkur

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson var fyrst kjörinn forseti 1996 varð til forsetaflokkur vinstrimanna sem skilaði sér í uppstokkun vinstriflokka um aldamótin. Þegar Ólafur Ragnar náði endurkjöri 2012 stóðu að baki honum hægrimenn sem árið eftir bjuggu til ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Á bakvið kjör Guðna Th. er ekki hægt að greina bakland sem gæti orðið að forsetaflokki. Stuðningssveitin á bakvið nýjan forseta er brotakennd og á sér engan annan samnefnara en Guðna Th.

Að því sögðu er líklegt að umrótið í forsetaslagnum hafi haft töluverð áhrif á fylgismælingar stjórnmálaflokkanna síðustu vikurnar. Þar stendur tvennt upp úr; lækkandi fylgi Sjálfstæðisflokksins og vöxtur Viðreisnar.

Forsetakjörið var Sjálfstæðisflokknum erfitt. Mesti leiðtogi flokksins frá dögum Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar eldri tók slaginn en galt afhroð. Framsóknarmenn veðjuðu á Höllu Tómasdóttur síðustu dagana fyrir kjördag og geta eignað sér öskubuskufylgið sem fleytti henni í annað sætið. Vinstriflokkarnir voru tvístraðir, eins og löngum áður. Fylgi þeirra dreifðist á Andra Snæ, Guðna Th. og Höllu. Píratar voru hvergi sjáanlegir í forsetabaráttunni.

Pólitískt landslag eftir kjör Guðna Th. er fullt af möguleikum.


mbl.is Guðni kjörinn forseti Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju, Guðni Th.

Guðni Th. Jóhannesson er næsti forseti lýðveldisins og við hæfi að óska honum velfarnaðar í starfi. Hann fær meira fylgi en fyrstu tölur sýndu en minni en skoðanakannanir gáfu honum. Niðurstaðan er ótvíræð og engin ástæða til að skilyrða umboðið sem Guðni Th. fær frá þjóðinni.

Kjör Guðna Th. sýnir að stjórnarskráin okkar og lýðræðisfyrirkomulag virka sem skyldi.

Næst á dagskrá eru alþingiskosningar.


mbl.is Guðni með forskot í Reykjavík suður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband