Læk-umræðan og lýðræðið

Bloggið og samfélagsmiðlar eins og feisbúkk ættu að öðru jöfnu auka umræðu og þátttöku almennings í lýðræðissamfélaginu. Enginn þröskuldur er fyrir þátttöku og því ætti þúsund blóm að blómstra, eins og formaðurinn sagði á tímum menningarbyltingarinnar.

En það er ekki allt sem sýnist frjálsræði netheima. Síðuhaldari tók nýverið þátt í umræðu um eitthvert málefni á spjallþræði á feisbúkk. Eftir nokkur skoðanaskipti kom eftirfarandi athugasemd (skrifuð eftir minni): Páll fær fæst lækin af þeim sem taka þátt í umræðunni.

Þessi aðferð, að ,,læka" einstakar athugasemdir á spjallþráðum, er einhvers konar atkvæðagreiðsla í rauntíma. Lesendur umbuna athugasemdum sem þeim fellur í geð með ,,læki." Atkvæðagreiðsla á meðan umræðunni stendur er  ekki annað en yfirlýsing um stuðning við málsaðila en ekki málefni þar sem umræðunni er ekki lokið.

Við þessar kringumstæður verður umræðan morfís-keppni.


Evrópa virkar ekki

Evrópusambandið býður 28 aðildarríkjum sínum upp á tæp 12 prósent atvinnuleysi að meðaltali, engan hagvöxt og verðhjöðnun sem mun knésetja skuldugustu þjóðir sambandsins, Ítalíu fyrst.

Wolfgang Münchau efnahagsskríbent Spiegel segir aðildarríki ESB ekki búa við svigrúm til að gagnsetja efnahagskerfi sín. Aðeins Evrópusambandið sjálft í samvinnu við seðlabanka evrunnar getur ráðist í það stórvirki að hleypa lífi í efnahagsstarfssemi álfunnar. Framkvæmdastjórn ESB er á hinn bóginn ekki með umboð til nauðsynlegra ráðstafna og því gerist ekkert.

Í Telegraph óttast Jeremy Warner að tröllauknar skuldir kæfi eftirspurn sem heldur aftur af verðbólgu og vöxtum. Fyrr heldur en seinna rennur upp fyrir lánadrottnum að þeir fá ekki peningana sína tilbaka og þá verður hvellur.

Bandaríkin eru komin fyrir horn með öflugan hagvöxt og æ sterkari dollar. Þjóðverjar horfa öfundaraugum á Bandaríkin stökkva fram úr Evrópusambandinu, sem ætlaði sér að verða heimsveldi viðskipta og fjármála, en situr kirfilega fast í heimagerðri kreppu ónýts gjaldmiðlasamstarfs. 


mbl.is Stöðnun ríkjandi á evrusvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstrimenn og kaupfélagsstjórinn sem stjórnar Íslandi

Einu sinni formæltu vinstrimenn Davíð Oddssyni fyrir að stjórna Íslandi. Vinstrimenn sáu Davíð á bakvið allt sem þeim var ekki að skapi. Í skjóli þráhyggjunnar um Davíð urðu ýmsir lukkuriddarar í viðskiptum að sérlegum skjólstæðingum vinstrimanna, - með það eitt sér til ágætis að Davíð taldi þá ekki merkilega pappíra.

Kaupfélagsstjórinn í Skagafirði, Þórólfur Gíslason, er kominn í hlutverk Davíðs Oddssonar. Samkvæmt vinstrimönnum stjórnar Þórólfur viðskipta- og fjármálalífinu á bakvið tjöldin. Helsti samfélagsrýnir vinstrimanna,  Guðmundur Andri Thorsson, segir Þórólf sitja við hægri hönd guðs og dæma þar einn í gjaldþrot en annan til auðlegðar.

Auðvitað renna sem fyrr lukkuriddarar á slóð vinstrimanna og segja Þórólf ábyrgan fyrir því að þeir hafi ekki ,,meikað" það í viðskiptum. Vinstrimenn lofsynja lukkuriddarana enda sjá þeir aldrei rangan hest án þess að veðja á 'ann.


mbl.is Bankalegar forsendur réðu för
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsþorpið verður múslímsk martröð

Marshall MacLuhan lagði grunninn að heimsþorpinu á sjötta áratug síðustu aldar þar sem amerísk menning drottnaði og einhver útgáfa af vestrænu lýðræði þreifst. Þjóðverjarnir á Die Welt segja heimsþorp kanadíska fjölmiðarýnisins orðið að martröð, - einkum sökum herskárra múslíma.

Annar meginboðskapur MacLuhan var að miðillinn sé boðskapurinn (medium is the message) í merkingunni að fjölmiðlatækni framleiði tiltekinn boðskap sem fellur að ráðandi tækni. Af þeirri staðreynd myndi leiða einsleitni. Eða svo sagði kenningin.

Múslímarnir í kalífadæminu í Sýrlandi/Írak afhöfða vestræna menn og færa þar með sönnur á að tækni skapar ekki einsleitni. Fáum sögum af vestrænu fólki að hálshöggva hvert annað með sveðju í einni hendi en iphone í hinni. Boðskapur miðilsins er ekki sá sami í Reykjavík og Aleppo.

Nágrannar nýja kalífadæmisins eru ekki tæknivæddir í ráðgjöf um að uppræta öfgarnar. Forsætisráðherra Dubai ráðleggur til dæmis trúarbragðafræðslu í anda yfirvalda í Saudí-Arabíu. Flestir hryðjuverkamannanna sem flugu á tvíturnana í New York í byrjun aldarinnar komu frá Saudí-Arabíu og  líklega ekki fullnuma í múslímskum fræðum umburðarlyndis og náungakærleika.

Við horfum fram á harðari heim öfga.

 

 

 


Elliði og Jóhann; hægriupprisa og vinstrieymd

Hægrimenn ná vopnum sínum jafnt og þétt. Elliði Vignisson túlkar sjónarmið hægrimanna í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum eru skeleggir miðhægrimenn eins og Vigdís Hauksdóttir, Frosti Sigurjónsson og Ásmundur Einar Daðason.

Grundvallarsjónarmið hægrimanna er fullvalda Ísland með forræði eigin mála annars vegar og hins vegar sjálfsbjörg einstaklingsins. Þetta eru hugmyndir jafngamlar nútímastjórnmálum á Fróni, sem hófust með sjálfstæðisbaráttunni um miðja 19. öld.

Á vinstri kanti stjórnmálanna ríkir á hinn bóginn eymd og volæði. Blaðafulltrúi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, Jóhann Hauksson, grætur klofninginn í röðum vinstrimanna sem í tíð Jóhönnu vildu selja fullveldið til Brussel en núna til Noregs. Lítt ígrunduð hentistefna ræður ferðinni í báðum tilvikum.

Hægrimenn erfa landið; vinstrimenn eru eilífa varaskeifan sem fær sín augnablik undir sólinni þegar hægrimenn klúðra sínum málum um stund, líkt og í hruninu.


mbl.is Flokkurinn „eins og syrgjandi ekkja“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leifur, Kólumbus og Polo

Sögulegar staðreyndir eru kúnstugar. Lengi var Kristófer Kólumbus talinn fyrstur Evrópumanna til að stíga fæti á Ameríku. Íslendingar áttu ritaðar frásagnir, Eiríks sögu rauða og Grænlendingasögu, er greindu frá meginlandi vestan Grænlands þar sem þeir Leifur heppni Eiríksson og Bjarni Herjólfsson römbuðu á fyrir tilviljun á tíundu öld.

Fornleifafundur á L'Anse aux Meadows á Nýfundnalandi á sjöunda áratug síðustu aldar staðfesti búsetu norrænna manna á meginlandi Ameríku um 500 árum fyrir för Kólumbusar. Staðurinn er kominn á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna og ætti sem slíkur að vera kunnur þeim sem fjalla um ,,fund" Evrópumanna á Ameríku.

En nei, nú er rætt um hvort Maro Polo sé fyrsti Evrópumaðurinn í henni Ameríku án nokkurrar vísunar í norrænu landkönnuðina. Klént.


Kristnar bænir og bölbænir RÚV

Meginþorri þjóðarinnar játar kristni og er skráður í þjóðkirkjuna. Saga okkar í þúsund ár er ofin kristnum gildum. Þegar kristnir söfnuðir koma saman á Kristsdegi er eðlilegt og tilhlýðilegt að forseti lýðveldisins og biskup mæti.

En það er hvorki eðlilegt né tilhlýðilegt að fréttastofa RÚV stilli forsetanum upp við vegg og þýfgi hann um einstök bænarefni kristinna safnaða.

Í landinu ríkir trúfrelsi, sem felur í sér að kristnir, eins og aðrir, eru í fullum rétti að hafa í frammi þær bænir trúarsannfæring þeirra kallar á. Hvorki forsetinn né biskup Íslands eiga íhlutunarrétt í bænir annarra og enn síður RÚV.

Hlutverk fjölmiðils sem starfar í almannaþágu er að upplýsa en ekki taka afstöðu. Frétt RÚV um bænarefni kristinna var ekki upplýsandi um annað en neikvæða afstöðu RÚV til kristni.


Hæstiréttur hafnar áfrýjun RÚV-fréttamanns

Með bréfi 22. sept. sl. til Kristjáns Þorbergssonar lögmanns Önnu Kristínar Pálsdóttur, fréttamanns á RÚV, hafnar Hæstiréttur Íslands ósk um áfrýjun á máli sem Anna Kristín tapaði í héraði þegar bloggari, sem hér skrifar, var sýknaður af dómskröfum Önnu Kristínar vegna bloggfærslu 16. júlí 2013.

Engin dæmi eru um að fréttamaður stefni vegna gagnrýni á störf sín. Anna Kristín Pálsdóttir og RÚV njóta þess vafasama heiðurs að brjóta í blað í sögu fjömiðlunar á Íslandi; að krefjast þess að tjáningarfrelsið verði takmarkað.

Til hamingju, Anna Kristín og RÚV.

 

Hér að neðan fylgir rökstuðningur bloggara fyrir því að Hæstiréttur ætti að láta dóm héraðsdóms standa. 

 

Hæstiréttur Íslands

Dómshúsinu við Arnarhól

150 Reykjavík


31. júlí 2014


Efni: álit stefnda á ósk stefnanda um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar í málinu E-3704/2013, Anna Kristín Pálsdóttir gegn Páli Vilhjálmssyni, sbr. bréf frá Hæstarétti dags. 17. júlí sl.


Sýknudómur héraðsdóms Reykjavíkur þann 6. maí sl. í ofangreindu máli tekur mið af tjáningarfrelsi eins og það er skýrt í 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 11. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, er tryggir þegnum landsins rétt til að tjá sig, sbr. 10. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, og staðfest er í dómum íslenskra dómstóla hin síðari ár og eru í samræmi við dómavenju Mannréttindadómstóls Evrópu.


Stefnd ummæli eru hlutlæg lýsing á tiltekinni frétt í RÚV annars vegar og hins vegar gildisdómur um fréttaflutning sem hallar réttu máli. Þau eru ekki úr hófi og í þágu málefnalegrar samfélagsumræðu.


Í hæstaréttardómi nr.  673/2011, Heiðar Már Guðjónsson gegn Inga Frey Vilhjálmssyni ofl., er tekist á um mörkin  á milli gagnrýni í þágu lýðræðislegrar umræðu annars vegar og hins vegar ærumeiðinga. Dómur Hæstaréttar er að jafnvel þótt notað sé sérlega gildishlaðið orð eins og ,,landráðamaður” í umræðu, sem jafnframt er ásökun um refsiverða háttsemi,  þá sé hvorki tilefni til að ómerkja slík ummæli né séu þau skaðabótaskyld. Hæstiréttur gerir kröfu til að gildisdómar eigi sér ,,einhverja stoð í staðreyndum málsins,” segir í nefndum dómi.


Í hæstaréttardómi nr. 382/2003 er meginreglan um refsileysi gildisdóma orðuð á þennan veg: ,,Fallast ber á með stefndu að gildisdómar í opinberri umræðu um samfélagsleg málefni séu almennt ekki refsiverðir.”


Í hæstaréttardómi nr. 181/2005 staðfestir Hæstiréttur túlkun héraðsdóms Reykjavíkur á 235. grein almennra hegningarlaga um að gildisdómar byggðir á staðreyndum sem taldar eru fyrir hendi skuli refsilausir.


Lögmaður stefnanda, Önnu Kristínar Pálsdóttur, gat ekki fyrir héraðsdómi fært rök fyrir þeirri staðhæfingu sinni að stefndi hafi borið stefnanda á brýn refsiverða háttsemi.  


Stefnandi viðurkenndi gagnrýniverða frammistöðu sína sem fréttamanns með því að leiðrétta þýðinguna á ,,accession process” í sjónvarpsfréttum RÚV samdægurs. Þar með staðfesti stefnandi að orð forseta leiðtogaráðs ESB hafi verið afbökuð, þ.e. fölsuð, í hádegisfréttum RÚV fyrr um daginn, en sú frétt var tilefni til stefndra ummæla. Þessi staðfesting ein og sér kippir stoðunum undan stefnunni, sem var þegar frá upphafi tilefnislaus.


Lögmaður stefnanda vísar í einn dóm Hæstaréttar til stuðnings ósk sinni um áfrýjunarleyfi. Í þeim dómi, nr. 383/2012, Björn Bjarnason gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, voru til málsmeðferðar ummæli sem sannanlega voru ásökun um refsivert athæfi, þ.e. fjárdrátt. Hæstiréttur rýmkaði svigrúm BB til tjáningar með því að fella úr gildi dóm héraðsdóms um að BB skyldi greiða JÁJ málskostnað. Dómurinn staðfesti ómerkingu einna ummæla BB, sem BB hafði viðurkennt að væru röng, borið til baka og beðist afsökunar á. Dómurinn er í engu málstað stefnanda, Önnu Kristínar Pálsdóttur, til framdráttar enda staðfestir Hæstiréttur þar viðtekna dómavenju, sbr. þau dæmi sem tilgreind eru að ofan.


Rök stefnanda fyrir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar eru með vísan í c. lið 4. mgr. 152. greinar laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Engin ný gögn fylgja beiðni stefnanda né heldur lagaleg rök er gætu leitt til þess að Hæstiréttur raski dómi héraðsdóms.


Stefndi, Páll Vilhjálmsson, telur tíma Hæstaréttar Íslands betur varið en í endurskoðun á lögmætum og rétt upp kveðnum dómi þegar öll tiltæk gögn og lagarök hníga að því dómur undirréttar skuli standa óraskaður, - nema ef til vill að því leyti að stefndi á rétt á sanngjörnum málsvarnarlaunum frá stefnanda enda stefnan tilefnislaus eins og að ofan greinir. Málsvarnarlaun eru þó aukaatriði í þessu samhengi; réttur sýknudómur aðalatriði, sem óþarfi er að endurskoða.



Virðingarfyllst,





Páll Vilhjálmsson

 


Krónan, evran og atvinnuleysi

Með krónu og fullveldi tókst Íslendingum að vinna sig hraðar úr hruninu en þeir hefðu annars gert. Hér varð ekki langtímaatvinnuleysi og hagvöxtur tók hratt við sér.

Samanburður við Írland er nærtækur. Írar voru með evru og í Evrópusambandinu. Í fimm ár eftir bankahrun, sem varð á svipuðum tíma og á Íslandi. bjuggu Írar við atvinnuleysi upp á 13 til 15 prósent. Í haust er því sérstaklega fagnað að atvinnuleysi á Írlandi er komið niður fyrir evru-meðaltalið og liggur nú við rúm 11 prósent.

Íslensk samfélagsgerð væri ekki söm og jöfn ef við yrðum að þola yfir tíu prósent atvinnuleysi yfir lengri tíma. Þeir sem biðja um evru eru jafnframt að kalla yfir okkur langtímaatvinnuleysi þúsunda landsmanna.

 


mbl.is Evran hefði ekki gagnast Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétttrúnaður og moska hlið við hlið

Vinstrimeirihlutinn í Reykjavík getur úthlutað lóð undir mosku á horni Seljavegar og Mýrargötu. Þar með yrðu trúarsöfnuðir rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar og múslímar í kallfæri.

Slík lóðaúthlutun myndi vera í sátt við nærliggjandi umhverfi enda vitað að kjósendur vinstriflokkanna hreiðra helst um sig í vesturbænum.

Hér er tækifæri til að leggja fram trúarpólitískt manifestó vinstrimanna í höfuðborginni. Þeir láta varla tækifærið úr greipum sér ganga. 


mbl.is Tillaga um óbreytt skipulag á Nýlendureitnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband