Frelsi, forseti og óreiða

Frelsi er lykilhugmynd í menningunni. Við viljum, í nafni einstaklingsfrelsis, lifa lífi okkar á þann hátt sem við kjósum án óviðkomandi afskipta.

Að því sögðu búum við í samfélagi og beygjum okkur undir sameiginlegar reglur til að samskipti séu friðsamleg og mannlífið gangi sæmilega greiðlega fyrir sig. Án umferðareglna, svo dæmi sé tekið, er hætt við að samgöngur yrði ógreiðari, að ekki sé sagt hættulegri. Við greiðum skatta til löggæslu, heilbrigðisþjónustu, menntunar og annarra samfélagslegra þarfa. Stjórnvöld, lýðræðislega kjörin, gæta sameignarinnar.

Frelsinu eru settar samfélagslegar skorður. Erfitt að sjá hvernig öðruvísi gæti verið. Jú, reyndar, það er hægt. Án laga og reglna, skráðra og óskráðra, yrði óreiða.

Allir Íslendingar 35 ára og eldri geta orðið forseti, segir stjórnarskráin. Umorðað: allir eldri en 35 ára eiga stjórnarskrárvarið frelsi að bjóða sig fram til forseta. Eitt lítið viðbótarskilyrði er að meðmælendur þurfi að vera 1500, rafræn undirskrift nægir.

Eitthvað um 60 manns hafa lýst yfir áhuga að bjóða sig fram til forseta, nýta frelsi sitt. Freista þess að fá kjör sem æðsta stjórnvald.

60 einstaklingar eru örlítið prósent þjóðarinnar. En nú gengur maður undir manns hönd og segir að þetta sé alltof mikill fjöldi frambjóðenda. Við blasi óreiða, gjaldfall embættis þjóðhöfðingja.

Viðbúið sé, er sagt, að næsti forseti hafi aðeins um 20 prósent fylgi á bak við sig. Á samfélagsmiðlum er hrollurinn áþreifanlegar. Yfir því einu að fáeinir tugir nýta frelsið, bjóða sig fram til forseta í lýðræðislegum kosningum. Svona eins og aðrir kaupa sér happadrættismiða. Aldrei að vita nema heppnin færi manni gull og græna skóga - eða Bessastaði til ábúðar í fjögur ár.

Hvaða almennu ályktanir má draga af forsetahappadrættinu, frelsi og óreiðu? Einkum tvær.

Í fyrsta lagi að skyldleiki er á milli frelsis og óreiðu.

Í öðru lagi að aðeins þarf fámennan hóp, örlítinn minnihluta, til að skapa samfélagslega óreiðu.

Niðurstaðan er að frelsi og samfélag án óreiðu eru gæði í hlutföllum. Við ættum að láta okkur annt um samfélagið, ekki líta á það sem happadrætti. 

 

 


Sigríður Dögg og land siðlausra blaðamanna

Enginn bauð sig fram gegn sitjandi formanni Blaðamannafélags Íslands, Sigríði Dögg Auðunsdóttur. Flokkseigendafélag blaðamanna sá til þess að enginn vogaði sér að hrófla við valdhöfum.

Helstu flokkseigendurnir eru Þórður Snær, Aðalsteinn Kjartansson, varaformaður BÍ, og Helgi Seljan, allir þrír á Heimildinni, en áður á RÚV, Stundinni og Kjarnanum, RSK-miðlum. Smáhjörð blaðamanna fylgir þeim að málum. Ekki þarf mikið til að stjórna félagsskap eins og BÍ. Sigríður Dögg var fyrst kjörin formaður vorið 2021, með 171 atkvæði.

Einmitt sama vor, 2021, stóðu RSK-miðlar fyrir ógeðfelldustu aðför blaðamanna í sögu fjölmiðlunar á Íslandi. Þeir misnotuðu andlega veika konu til að byrla eiginmanni sínum, Páli skipstjóra Steingrímssyni, stela síma hans og afhenda blaðamönnum. Skipstjórinn lá milli heims og helju í 3 sólarhringa. Á meðan var sími hans afritaður á RÚV. Á Efstaleiti var sama falsfréttin skrifuð í tveim útgáfum, um skæruliðadeild Samherja. Fréttin birtist samtímis í Stundinni og Kjarnanum snemma morguns 21. maí.

Strax eftir kjörið vorið 2021 vatt Sigríður Dögg sér í að bera í bætifláka fyrir misindismenn RSK-miðla. Hún fékk samstarf við norræn sendiráð á Íslandi um málþing. Meginviðfangsefni málþingsins var sérstakt hugðarefni RSK-miðla, að þeir væru ofsóttir af norðlenskri útgerð:

Hafa blaðamenn á hinum Norðurlöndunum upplifað viðlíka árásir á fréttamenn og Samherji hefur ástundað? Hvert er hlutverk stjórnvalda þegar kemur að því að tryggja fjölmiðlafrelsi?

Meintar árásir Samherja er falsfrétt, líkt og skæruliðadeildin. Samherji hafði það eitt til saka unnið að gera myndbönd á YouTube til að andmæla ásökunum RSK-miðla í Namibíumálinu. Sigríður Dögg og félagar kalla það árásir þegar falsfréttum er andæft.  Þórður Snær og Helgi Seljan fengu báðir hlutverk á málþinginu sumarið 2021. Lögreglurannsókn var hafin á byrlunar- og símastuldsmálinu, þótt fáir vissu af enda lagði flokkseigendafélag blaðamanna blátt bann við fréttaflutningi. RSK-blaðamenn vildu með málþinginu fá undanþágu frá refsilöggjöfinni, í reynd heimild til að eiga aðild að byrlun og stuldi. Lilja Alfreðsdóttir ráðherra menningarmála beit á agnið og flutti erindi.

Tilfallandi fjallaði um málþingið á sínum tíma. Tilvitnun úr blogginu sýnir hugarfarið sem RSK-miðlar höfðu skapað:

Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður Samfylkingar var með ákveðið hlutverk í sviðsetningunni. Hún sat við hlið Helgu Völu og stóð upp þegar Helgi Seljan hafði flutt sína útgáfu af Samherjamálinu. Rósa Björk byrjaði á því að líkja Samherjamálinu við morðið á blaðakonu á Möltu fyrir nokkrum árum, jafn smekklegt og það er. Rósa Björk vakti athygli á því að stjórnvöld á Möltu tóku ekki til við að rannsaka morðið fyrr en eftir alþjóðlegan þrýsting. Síðan spurði þingmaður Samfylkingar hvort og hvernig mætti setja alþjóðlegan þrýsting á íslensk stjórnvöld í deilu RÚV við Samherja.

Óhugnanleg samlíking Rósu Bjarkar veitir innsýn í bandalag vinstriþingmanna og RSK-miðla. Fjölmiðlarnir skálda falsfréttir og þingmenn trúa lyginni sem nýju neti enda fellur hún að pólitískum fordómum þeirra. Sé fáránleikanum mótmælt er andmælendum líkt við morðingja.

Sigríður Dögg hélt áfram að þjónusta skemmdu eplin í blaðamannatunnunni. Fjórir blaðamenn urðu sakborningar í byrlunar- og símastuldsmálinu í febrúar 2022. Óskiljanlegt að lögreglan krefji blaðamenn um að upplýsa heimildarmenn, sagði formaðurinn. En lögreglan vissi vel hver heimildarmaður blaðamanna var, veik eiginkona skipstjórans. Sigríður Dögg japlaði á sömu tuggunni og Þórður Snær, að lögreglan vildi nafn heimildarmanna. Það eru ósannindi. Lögreglan vissi um heimildarmann RSK-miðla.

Þegar harðnaði á dalnum í málsvörn sakborninga og Sigríðar Daggar var ráðinn til verka danskur blaðamaður búsettur á Íslandi, Lasse Skytt. Þar hæfði skel kjafti, Skytt var síðar afhjúpaður sem falsfréttamaður. Að undirlagi Þórðar Snæs og Sigríðar Daggar skrifaði sá danski tvær greinar um ofsóknir íslenskra yfirvalda á hendur blaðamönnum. Greinarnar birtust í Aftenposten-Innsikt og Journalisten. Tilfallandi tók saman þátt Sigríðar Daggar í Skytt-málinu. Þar er lygi smurð ofan á ósannindi með blekkingu sem álegg. Bæði Aftenposten-Innsikt og Journalisten hafa beðist afsökunar á falsfréttunum.

Síðasta sumar var Sigríður Dögg afhjúpuð sem skattsvikari. Enginn veit hve háum fjárhæðum formaður blaðamanna stakk undan skatti. Hún neitar að gera grein fyrir málavöxtu. Viðskiptablaðið tók saman það litla sem haft er eftir Sigríði Dögg. Í hlaðvarpi sósíalista, Samstöðunni, sagði hún þetta um skattsvikin:

„Þetta voru alveg stórar upphæðir, ég viðurkenni það.“

Vegna skattsvikanna varð Sigríður Dögg að hætta á fréttastofu RÚV. Miðstöð byrlunar- og símastuldsmálsins, Glæpaleiti, úthýsir óheiðarlegum blaðamanni. En Sigríður Dögg situr áfram keik sem formaður Blaðamannafélags Íslands. Flokkseigendafélag blaðamanna passar upp á talsmann sinn. Gagnkvæmir hagsmunir eru um að lögbrot, óheiðarleiki og siðleysi hafi betur en heilindi, löghlýðni og siðareglur. Gæti hvergi gerst nema í landi siðlausra blaðamanna.

 

 

 


mbl.is Sigríður Dögg áfram formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hildarleikur og Katrínarklúður

,,Bjóði Katrín sig fram tekur hún páskana í nauðsynlega handavinnu," skrifaði tilfallandi 17. mars. Páskahelgin virðist hafa verið starfssöm hjá Katrínu forsætis. Af öllum sólarmerkjum að dæma kynnir hún framboð til forseta í vikunni. Nema að handavinnan hafi klúðrast. 

Að ríkisstjórnin sæti áfram var gefið. Fréttir í gær um að sjálfstæðismenn leituðu hófanna hjá Viðreisn eru annað tveggja úr lausu lofti gripnar eða pólitískur glæfraleikur. Fóðrið í fréttirnar, að Viðreisn kæmi í stað Vinstri grænna, kom frá þingflokki Sjálfstæðisflokksins sem boðaður var á fund til að ræða stjórnarsamstarfið.

Stjórnarslit yrðu áfellisdómur allra þriggja ríkisstjórnarflokkanna. Björt framtíð hélt næturfund til að fella ríkisstjórn og þurrkaðist út í næstu kosningum. Fundarboð sjálfstæðismanna í gær er ekki jafn óábyrgt en hallar sér í áttina. Taugaveiklunin í kjölfar fundarboðunar sjálfstæðismanna gerði allar tölur nema eina rauðar í Kauphöllinni. Sumar tölurnar urðu verulega rauðar. Flokkur sem vill þeim vel er ávaxta sitt pund sendir ekki skilaboð um að líf ríkisstjórnar hangi á bláþræði nema verulega hrikti í.

Eitthvað hlýtur að búa að baki.

Það stendur upp á Katrínu að ganga friðsamlega frá borði ríkisstjórnarfleytunnar, stefni hún á Bessastaði. Gerði hún órímlegar kröfur, t.d. að vinstri grænir héldu forsætisráðuneytinu? Er það ástæða frétta í gær Svandís, vinkona Katrínar, eigi yfir höfði sér vantraust vegna hvalræðis síðasta vetrar? Svandís er skæruliðapólitíkus, íslensk útgáfa Úlriku Meinhof. Djúpheimskur orðavaðall helst í hendur við óstjórnlega löngun að sprengja allt í tætlur, þó í óeiginlegri merkingu hjá Svanhof.

Orðspor Svandísar gefur pólitískum blaðamanni Morgunblaðsins, Andrési Magnússyni, tilefni til að skrifa eftirfarandi í morgunútgáfu blaðs allra landsmanna: 

Margir spyrja hins vegar hvort hún [Svandís] hafi áhuga á því að framlengja ríkisstjórnarsamstarfið; henni og flokki hennar kunni að koma vel að vera í stjórnarandstöðu fram að næstu kosningum, sem fram fara ekki síðar en haustið 2025.

Hér yrði um að ræða skringilegustu pólitísku loftfimleika lýðveldissögunnar. Stjórnarflokkur, sem fer með forsætisráðuneytið í þokkabót, tæki sér frí síðasta ár kjörtímabilsins til að bera ekki ábyrgð á landsstjórninni í kosningabaráttunni. Vinstri grænir út og Viðreisn inn. Stjórnin springur en hvellurinn er kallaður innáskipting.

Hildar leikur Sverrisdóttur þingflokksformanns sjálfstæðismanna, að boða fund, fylgir hún úr hlaði með þeim orðum í viðtengdri frétt að ,,það liggi ekki fyrir" hvað verði um ríkisstjórnarsamstarfið, gangi Katrín frá borði.

Döh. Jú, það verður að liggja fyrir, annars fer Katrín ekki í framboð. Ef ríkisstjórnin springur stórskaðast möguleikar Katrínar að ná kjöri í sumar. Makaskipti á Bessastöðum og ráðherradómi viðreisnarþingmanna er ekki leikflétta sem gengur upp.  

Í sömu frétt segir að Þórdís Kolbrún hafi ,, um liðna helgi rætt við þing­menn flokks­ins um hvað væri til ráða ef ske kynni að Katrín færi í fram­boð..." Hvar var Bjarni formaður? Það er Bjarni sem semur við Katrínu og Sigurð Inga um framhald mála, hverfi Katrín á braut. Annað: Hildur myndi ekki boða fund þingflokksins nema ráðfæra sig við Bjarna.

Tilfallandi ráðlegging til áhafnar þjóðarskútunnar er að taka sig saman í andlitinu og koma skikki á útgerðina hið fyrsta. Þjóðin sér í gegnum fingur sér með hversdagslega sísvengd stjórnmálamanna eftir metorðum. Metnaðurinn er orðinn blindur þegar þýfgað er um tvö æðstu embætti lýðveldisins, forsætisráðherra og forseta. Þjóðarhagsmunir eru gerðir að afgangsstærð. Tímabært er að spyrja hvort ekki eigi að vísa allri áhöfninni á landganginn. Óreiðufólk á ekkert erindi í stjórnarráðið. 

  

 

 

 

    


mbl.is Funda vegna mögulegs forsetaframboðs Katrínar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fagleg fjárkúgun Sigríðar Daggar

Dagar íslenskrar blaðamennsku eru taldir ef skattsvikarinn Sigríður Dögg hlýtur ekki endurkjör sem formaður Blaðamannafélags Íslands. Á þessa leið les fjölmiðlarýnir Viðskipablaðsins, Örn Arnarson, í undirliggjandi skilaboð auglýsingaherferðar Blaðamannafélagsins:

Miðað við útlit herferðarinnar og framsetningu virðist það einnig vera markmið herferðarinnar að fólk fái það á tilfinninguna að því hafi verið að berast fjárkúgunarbréf frá formanni Blaðamannafélagsins...

Tvennt annað vekur athyli fjölmiðlarýnis Viðskiptablaðsins. Herferð Blaðamannafélagsins mismunar blaðamönnum, segir suma blaðamenn faglega en aðra ófaglega. Þá hrýs fjölmiðlarýni hugur sá boðskapur að blaðamenn ,,setji fréttir í samhengi".

[Í vitundarherferð Blaðamannafélagsins] er undirstrikað að ekki dugi að blaðamenn segi fréttir, heldur þurfi að setja þær í samhengi og skýra með hag almennings að leiðarljósi. Hvað er verið að segja hér? Jú, við þurfum ekki að leita staðreynda, greina kjarna máls og meta ólík sjónarmið. Við getum bara eftirlátið faglegum blaðamönnum það, sem af fórnfýsi og náungakærleik setji það allt í samhengi fyrir okkur.

Lítum sem snöggvast á þrjú dæmi um ,,faglega" blaðamennsku er setur ,,hlutina í samhengi." Stærsti fjölmiðill landsins, sjálf ríkisútgáfan, RÚV, er í aðalhlutverki í öllum þremur tilvikum. Faglegir blaðamenn á feitum ríkislaunum eiga sem sem sagt í hlut.

Í seðlabankamálinu falsaði RÚV gögn. Í Namibíumálinu var drykkfelldur ógæfumaður eina heimildin fyrir ásökunum um mútur. Í byrlunar- og símastuldsmálinu misnotuðu blaðamenn konu sem gengur ekki heil til skógar, fengu hana til að byrla eiginmanni sínum og stela frá honum síma sem blaðamenn afrituðu.

Blaðamennskan í málunum þrem þverbrýtur grunnreglur vestrænnar blaðamennsku. Aidan White forstöðumaður siðastofnunar blaðmanna, EJN, útskýrir reglurnar, en þær eru:

1. Nákvæmni 2. Sjálfstæði 3. Óhlutdrægni 4. Mannúð 5. Ábyrgð.

Reglurnar fimm eru hornsteinn heiðarlegrar blaðamennsku. Blaðamennskan sem Sigríður Dögg kynnir almenningi á Íslandi sem faglega er í öllum vestrænum ríkjum talin glæpsamlegur óheiðarleiki. Frétt byggð á fölsuðum gögnum er ekki nákvæm. Ekki er til marks um sjálfstæði að RÚV afriti stolinn síma og sendi fréttir til birtingar í Stundinni og Kjarnanum. Hlutdrægnin í málunum þrem er yfirþyrmandi, þarf ekki að ræða frekar. Um mannúð og ábyrgð er það að segja að enginn, hvort heldur blaðamaður eða ekki, með minnsta vott af ábyrgð og mannúð misnotar andlega veika til óhæfuverka. 

Mannlíf á Íslandi yrði snöggtum betra án glæpsamlega óheiðarlegrar blaðamennsku. Endurkjör Sigríðar Daggar í formannsstól Blaðamannafélags Íslands er til marks um siðakreppu starfsstéttar. Vitundarvakningin ætti að beinast að blaðamönnum sjálfum, ekki almenningi. Sjálf ætti Sigríður Dögg að sýna fordæmi og axla ábyrgð.


Gervigreind og tvímæli þekkingar

Gervigreind getur, a.m.k. fræðilega, leitað í öllum heimsins gagnasöfnum, unnið með þann efnivið og skilað svörum við bæði áleitnum spurningum og léttvægum.

Drottning raunvísinda í meira en hundrað ár er eðlisfræði. En í fjörtíu ár eru engar framfarir í greininni, skrifar starfandi eðlisfræðingur, Peter Woit, og vitnar í annan, öllu þekktari, Sabine Hossenfelder, sem er sama sinnis.

Leikmaður gæti spurt: hvers vegna tekur ekki einhver eðlisfræðingur sig til og beitir gervigreind á framþróunarkreppu fræðigreinarinnar? Ef öll heimsins þekking er til reiðu, má ekki byggja á henni til að taka næsta skref?

Woit gefur til kynna að málið sé ekki svo einfalt. Það skortir hugmyndir, menn eru fastir í viðjum hefðar, hver étur upp eftir öðrum.

Ha? Er hugmynd ekki að láta sér detta eitthvað í hug sem mætti prófa, t.d. með gervigreind? En nei, það er ekki hægt. Nýir Einsteinar spryttu hraðar upp en auga á festi ef gutl með gervigreind dygði.

Einstein, þessi eini sanni, er höfundur tveggja afstæðiskenninga, þeirri sértæku og almennu. Í dag kallast þær þekking. Upphaflega aðeins innsæi, eða hugmynd. Einstein hugsaði efnisveruleikann upp á nýtt. Hugsunin varð ekki að þekkingu fyrr en eftir nokkurt strit. Einstein fékk hjálp við nauðsynlega útreikninga, sem síðan var hægt að prófa. Þá, en ekki fyrr, var hægt að tala um þekkingu.

Dæmið af Einstein segir að hugsun komi fyrst, síðan skilningur og loks þekking. Áður en Einstein lét hugann reika var til önnur þekking um eðli heimsins, kennd er við Newton. Í ævisögu hans og aflfræðinnar er eftirfarandi játning (s. 142 og 171):

Þyngdaraflið er okkur kunnugt vegna áhrifa þess. Við skiljum þyngdaraflið með stærðfræðiformúlu. Þar fyrir utan skiljum við ekki neitt. [...] Tilgangslaust er að vísa í rök. Lögmál náttúrunnar eru ekki rökleg sannindi.  

Tvímæli þekkingar er fyrirvarinn, að við vitum ekki betur, annars vegar og hins vegar að þekking er sköpun, byrjar með innsæi. Newton og Einstein þekktu báðir fyrirvarann, að enn væri margt ósagt um eðli alheimsins. Gervigreind þekkir ekki fyrirvarann og hefur ekkert innsæi. Engin afurð gervigreindar yfirstígur mannlega þekkingu.

Þar fyrir utan er gervigreind til margs nýtileg. Ábyggilega er skemmtilegra og lærdómsríkara að hitta fyrir á spjallrás vélgreind fremur en mann. Til að spjalla.

Gleðilega páska.

 

 


Þorsteinn Már talar á 12 ára afmælinu, RÚV þegir

Tólf ára afmæli Seðlabankamálsins var 27. mars. Þann dag árið 2012 skipulögðu RÚV og Seðlabankinn húsleit á skrifstofum Samherja á Akureyri og Reykjavík. Til grundvallar lágu fölsk gögn Helga Seljan á RÚV og rangir útreikningar seðlabankans á karfasölu útgerðarinnar. Verðmæti viðskiptanna, sem reyndust fyllilega lögleg, voru upp á 60 þús. evrur eða níu milljónir króna. Ekki beinlínis stórfé.

Myndatökumenn RÚV voru viðstaddir húsleitina sem fór fram að morgni. Búið var að skipuleggja Kastljósþátt um kvöldið. Á meðan húsleit stóð yfir voru sendar út fréttir og fréttatilkynningar á íslensku og ensku - beinlínis til að hámarka skaða norðlensku útgerðarinnar.

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja settist í hljóðstofu Þjóðmála í tilefni afmælisins, ræddi sjávarútveg vítt og breitt en fór í saumana á húsleitinni og eftirmálum hennar.

,,Það er margt ömurlegt við þetta mál," segir Þorsteinn Már. Húsleitin kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Ekki fyrr en eftir tæp tvö ár fengu Samherjamenn að vita hvaða glæpi þeir áttu að hafa framið. Eftir margra ára málarekstur var málið fellt niður. 

Ný bók Björns Jóns Bragasonar, Seðlabankinn gegn Samherja, rekur 12 ára sögu tveggja ríkisstofnana að klekkja á útgerðinni. Tifallandi skrifaði um bókina og vitnaði í greinargerð frá 2019, undirrituð af seðlabankastjóra, er sagði að húsleitin hjá Samherja hafi haft ,,töluverð fælingaráhrif."

Í viðtalinu vekur Þorsteinn Már athygli á að RÚV lagði ofurkapp á að sýna fram á sekt Samherja þótt rannsóknin væri vart hafin. Fréttaflutningur og viðtöl við stjórnmálamenn var samræmd frásögn um sekt Samherja. En ekkert var nokkru sinni sannað, það var ekkert afbrot. Aðeins flóðbylgja frétta um að útgerðin hefði brotið lög. 

Hvorki RÚV né seðlabankinn hafa játað misgjörðir þótt kýrskýrt sé að tilefni húsleitarinnar sé fölsuð skýrsla RÚV annars vegar og hins vegar rangir útreikningar seðlabankans.

Viðtali Þjóðmála við Þorstein Má lýkur áður en komið er að framhaldi RÚV að herja á Samherja eftir Seðlabankamálið. Namibíumálið frá 2019 og byrlunar- og símastuldsmálið frá 2021 eru skipulagðar aðgerðir RÚV að klekkja á útgerðinni.

Fyrst beitti RÚV fölsuðum gögnum fyrir vagn sinn, síðan fyllibyttu og loks andlega veikri konu sem byrlaði og stal. Jafnt og þétt grefur Efstaleiti sig dýpra í fen spillingar, siðleysis og glæpa. Enginn grípur í taumana. Sérlega spilltum blaðamönnum og sakborningum í lögreglurannsókn er laumað út bakdyramegin á Glæpaleiti.

Hvernig stendur á því, gæti fólk spurt, að ríkisfjölmiðill kemst upp með slíkt háttalag í áravís? Jú, með stuðningi frá baklandi sínu, þingflokkum vinstrimanna.

Þingmenn Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Viðreisnar tala upp tilhæfulausar ásakanir sem RÚV hefur í frammi. Í ræðustól alþingis fær RÚV-fleiprið löggildingu. 

RÚV þegir um 12 ára afmæli húsleitarinnar. En þar sem íslensk blaðamennska er komin í ruslflokk, þökk sé RÚV, stendur yfir herferð Blaðamannafélags Íslands til að kaupa tiltrú almennings. Í herferðinni er ekki minnst einu orði á heiðarleika. RÚV-blaðamennska er járnbrautaslys sýnt hægt i beinni útsendingu. 


Risaeðlur, Darwin og trúarvísindin

Vitundarskipti Evrópumanna, einkum Breta, á 19. öld er viðfangsefnið í nýrri bók, Ómögulegar ófreskjur, eftir Michael Taylor. Í viðtali á Unherd gefur höfundur stutta útgáfu. Á 19. öld finnast bein og steingervingar sem kippa stoðum undan kenningu kirkjunnar um guð sem höfund heimsins. Fyrsta menningarstríðið var á milli kirkjunnar og vísindanna, segir Taylor.

Darwin gaf vísindunum nýja hugmyndafræði, þróunarkenninguna, rétt eftir miðja 19. öld, og þar með var leikurinn tapaður kirkjunni.

Náttúrleg guðfræði var fræðilega heitið á vísindum sem í fyrstu áttu að sameina kennisetningar Biblíunnar og leifar af risaeðlum, sem ekki er gerð grein fyrir í sköpunarsögunni. Frumkvöðlar nýju vísindanna komu margir úr klerkastétt. Kristin heimsmynd var forsenda nýju vísindanna.

Ef maður trúir á þróunarkenningu Darwins, sem ég geri, segir Taylor (23:50), þá hlaðast sönnunargögnin upp. Tja, já og nei. Það er ekki hægt með gögnum að rekja þróun mannsins aftur í tímann stig af stigi til frumapans sem er sameiginlegur forfaðir manna og apa. Elsti tvífætlingurinn er tímasettur fyrir fjórum milljónum ára. Maðurinn er um 200 þúsund ára gömul tegund. Tímaspönnin þar á milli er löng og lítt kunn. Kenningin segir og við trúum en gögnin vantar.

Fáeinir úr röðum vísindamanna voga sér að andæfa, t.d. David Berlinski, sem segir líffræði Darwin ekki standast vísindalega aðferðafræði. Engin forspá er í þróunarkenningunni og tilgátur ekki hægt að prófa. Berlinski og þeir fáu sem líkt tala fá lítinn hljómgrunn. Svona eins og náttúrulegu guðfræðingarnir á fyrri hluta 19. aldar. Ráðandi sjónarmið eru önnur.

Þróunarkenningin heldur enn, þótt rök og gögn veikist fremur en styrkist. Vísindin eru bætt upp með skorti á valkostum. Við sitjum uppi með trúarvísindin um upphaf manns og heims. Á löngum föstudegi er vert að íhuga hvort þröskuldurinn til skilnings sé manninum óyfirstíganlegur. Kannski er það eilíft hlutskipti mannsins, að trúa en vita ekki. 


Guðni Th. í spor Ólafs Ragnars

Í forsetakosningum er haft á orði að þjóðin ,,finni" sinn frambjóðanda. Átt er við að einhver frambjóðenda fái í kosningabaráttunni meðbyr er skilar lyklavöldum að Bessastöðum. Ólafur Ragnar ,,fannst" árið 1996 sem valkostur við forræði Davíðs Oddssonar í landsmálum. Guðni Th. ,,fannst" árið 2016 þegar RÚV beitti honum óspart sem álitsgjafa við að fella ríkisstjórn Sigmundar Davíðs.

Í raun leitar þjóðin ekki að frambjóðanda. En sá frambjóðandi sem nær að spila á strengi þjóðarsálarinnar sem heppilegasti frambjóðandinn fær forskot er endist til Bessastaða. Eftiráspekin býr til þjóðsöguna um að þjóðin ,,finni" sér forseta.

Forsetakosningar, þar sem sitjandi forseti leitar ekki eftir endurkjöri, eru óútreiknanlegri en þingkosningar. Persónur og pólitík eru í öðrum hlutföllum en í hversdagslegum stjórnmálum. Flokkspólitík leysist upp en óformlegur skilningur verður til milli stærri og smærri hópa.

Forval forsetaframbjóðenda stendur yfir fram að lokum apríl er framboðsfrestur rennur út. Á tíma forvals leita frambjóðendur að bandalagi sem nægir til sigurs. Þriðjungsfylgi gæti nægt. Ólafur Ragnar og Guðni Th. hlutu um 40 prósent í frumkjöri sem forsetar. Óheppilegt er að minnihluti þjóðarinnar standi að baki nýkjörnum forseta en lögin eru eins og þau eru.

Undirskriftarsöfnun sem hvetur Guðna Th. til að endurskoða fyrri ákvörðun um að gefa ekki kost á sér er til marks um óreiðu á bakið tjöldin. Guðni Th. gefur ádrátt um að mögulega kunni hann að endurskoða fyrri afstöðu. 

Sjálfur beið Guðni Th. með að tilkynna framboð vorið 2016 uns öruggt var að Ólafur Ragnar yrði ekki í framboði. Hann má vita af eigin reynslu að sé óvissa um hvort sitjandi forseti stefni á endurkjör lamar það löngun mögulegra frambjóðenda sem hafa einhverju að tapa.

Á forsetatíð sinni hefur Guðni Th. ekki stundað klækjastjórnmál. Honum sæmir ekki að byrja á þeim núna. Hrökkva eða stökkva fyrir helgi, Guðni Th.  


mbl.is Guðni hvattur áfram í undirskriftasöfnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurkoma Stasi, löggæsla hugarfarsins

Stasi, austur-þýska leynilögreglan á tíma kommúnisma, rak umfangsmikið net uppljóstrara sem njósnuðu um nágranna og vini, jafnvel ættingja. Eftirlit með hugsun þegnanna auðveldaði stjórn á hegðun þeirra.

Hugmyndafræðin að baki Stasi, aðeins ein skoðun leyfileg, fær endurnýjun lífdaga í vestrinu. Nú undir þeim formerkjum að barist sé gegn hatursorðræðu.

Skosk löggjöf sem tekur gildi 1. apríl (við hæfi) gerir ráð fyrir að börn geti kært foreldra sína fyrir hatursorðræðu. Stöðluð eyðublöð auðvelda fólki að kæra meðborgara sína fyrir skoðanir sem stuða. Kærendum er tryggt nafnleysi. Dálkahöfundur Telegraph, Suzanne Moore, rekur helstu þættina í löggjöfinni sem veitir lögreglu víðtækar heimildir til að rannsaka og ákæra brot er teljast óæskileg tjáning.

Skoski þjóðarflokkurinn, SNP, er höfundur löggjafarinnar. Flokkurinn sameinar þjóðernissinna og vinstrimenn og er ráðandi stjórnmálaafl í Skotlandi.

Leit að hatri gerir ekki annað en að auka það, skrifar Moore. Hatur er tilfinning, líkt og ást. Opinber stefnumótun er gefur sér að tilfinningar borgaranna séu á forræði ríkisvaldsins stuðlar að andrúmslofti tortryggni og svikabrigsla. Löggjöf sem gerir meint hatur refsivert er sniðmát fyrir skoðanakúgun. Jaðarhópar samfélagsins valdeflast. Þeir líta á allt sem ekki fellur að þeirra sérvisku til marks um hatur og andstyggð. Engin umræða, aðeins lögreglurannsókn, ákæra og dómur.

Vegurinn til vítis er varðaður góðum áformum, segir orðskviðan. Löggjöf sem ætlað er að vernda minnihlutahópa fyrir hatursorðræðu gæti á yfirborðinu virst góðmennska. En það er öðru nær. Opinber löggæsla hugarfarsins er gjaldþrotayfirlýsing mannréttinda. Fái ríkisvaldið valdheimildir að rannsaka og ákæra borgara fyrir skoðanir er tómt mál að tala um hugsanafrelsi að ekki sé talað um réttinn til að tjá hug sinn.  

Minnsti minnihlutinn er einstaklingur með sjálfstæða skoðun. Samfélag án frjálsra skoðanaskipta er alræði, Stasiland. 


Blaðamenn og byrlari: 78 smáskilaboð

Enn er óþekkt innihald 78 sms-skilaboða í byrlunar- og símastuldsmálinu. Á milli blaðamanna RSK-miðla og byrlara Páls skipstjóra Steingrímssonar fóru fram regluleg samskipti í aðdraganda og eftirmála byrlunar og stuldar. Gögnin eru í fórum lögreglu en hafa ekki verið gerð að gögnum málsins. Aðeins gögnum málsins er dreift til sakborninga og brotaþola.

Sms-skilaboðin ná yfir tímabilið apríl til júlí 2021. Elstu samskipti blaðamanna og byrlara, sem eru komin í umferð, eru frá ágúst 2021. 

Lögreglurannsókn á byrlunar- og símastuldsmálinu hófst 14. maí 2021. Þann dag lagði Páll skipstjóri fram kæru. Skipstjóranum hafði verið byrlað 3. maí. Á meðan hann lá meðvitundarlaus milli heims og helju í þrjá dag var síma hans stolið og innihaldið afritað á Samsung-síma, samskonar og skipstjórans. Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks/RÚV keypti símann í apríl, áður en skipstjóranum var byrlað.

Stundin og Kjarninn birtu keimlíkar fréttir 21. maí sem báðar vísuðu í gögn úr síma skipstjórans. Samræmd birting sýndi skipulag í rás atburða. Án skipulags var ekki hægt að kaupa afritunarsíma fyrir byrlun og stuld.

Fyrir liggur játning á byrlun og stuldi. Þáverandi eiginkona skipstjórans, sem ekki gengur heil til skógar, gekkst við afbrotinu. Hún afhenti síma skipstjórans blaðamönnum. Eftir afritun var símanum skilað á sjúkrabeð Páls.

Í janúar og febrúar 2022 fengu fjórir blaðamenn stöðu sakbornings. Þórður Snær og Arnar Þór Ingólfsson á Kjarnanum, Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni og Þóra Arnórsdóttir á RÚV. Fimmti blaðamaðurinn, Ingi Freyr Vilhjálmsson á Stundinni, fékk síðar stöðu sakbornings. Í byrjun árs 2023 sameinuðust Stundin og Kjarninn undir merkjum Heimildarinnar.

Blaðamenn neituðu að mæta til yfirheyrslu veturinn 2022, mættu ekki fyrr en í ágúst og september sama ár. Um áramótin 2022-2023 var rannsókn langt komin. Megináhersla lögreglu hafði verið á meðferð stolinna gagna, ekki hvernig atvikaðist að afbrotin fóru fram. Auk skipstjórans er brotaþoli í málinu Arna McClure lögfræðingur.

Búist var við ákæru í málinu í janúar eða febrúar 2023. Danski blaðamaðurinn og almannatengillinn Lasse Skytt, síðar alræmdur falsfréttamaður, tók að sér að skrifa málsvörn sakborninga í fréttaformi og fékk birtingu í byrjun árs í norsku útgáfunni Aftenposten-Innsikt og danska fagritinu Journalisten. Málsvörnin endaði illa, eins og rakið var í bloggi gærdagsins.

En það var einmitt um áramótin 2022-2023 sem grunur lögreglu styrktist að komist hefði á samband milli blaðamanna og byrlara áður en látið var til skarar skríða gegn skipstjóranum. Upp komst um Samsung-símann sem Þóra keypti fyrir byrlun. Í framhaldi leitaði lögregla eftir afritum af tölvupóstum veiku konunnar og blaðamanna. Konan notaði gmail og hafði að undirlagi blaðamanna eytt öllum tölvupóstum. Lögreglan leitaði til Google á Írlandi sem hýsir gögnin.

Næsta yfirheyrsla verður yfir konunni sem játaði byrlunina enda hún ýmist sendandi eða viðtakandi sms-skilaboðanna 78. Hvort lögreglan eigi vantalað við sakborningana fimm áður en kemur að ákærum á eftir að koma á daginn. Sjötti blaðamaðurinn, Helgi Seljan, er tengdur málinu. Hann hefur enn hvorki réttarstöðu vitnis né sakbornings, svo vitað sé. Áður en ákært verður er líklegt að Stefán Eiríksson útvarpsstjóri verði boðaður í skýrslutöku sem vitni.  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband